Saving Graceland

Tónlistarverndunarhópurinn og andgravitistarnir Saving Graceland hefur sett upp tjaldbúðir við 3734 Elvis Presley Boulevard í Memphis Tennessee, betur þekkt sem Graceland. Þar berst hópurinn gegn slæmum tónlistarsmekk samlanda sinna og krefst þess að stjórnvöld setji löggjöf um tónlistarspilun sem útiloki tónlist sem ekki telst í anda Elvis Presley. Einnig berjast þau gegn því sem þau kalla alræði þyngdaraflsins og áhrifum af óheftu þyngdarafli á líf og limi fólks um gervallan heim.

„Við teljum slæman tónlistarsmekk ríða húsum í samfélagi dagsins í dag og teljum fólk almennt velja sér slaka tónlist til að hlusta á. Við skiljum ekki hvernig fólk getur haft smekk fyrir einhverju öðru en Elvis Presley og tónlist í anda hans … og reyndar ABBA líka“, segir Muriel Heslop, forsprakki hóps sem kallar sig Saving Graceland. „Við teljum að það sé nóg komið af frjálsu og óheftu vali fólks á tónlist þar sem það hefur augljóslega neikvæð andfélagsleg áhrif að hlusta á eitthvað annað. Tölfræðin sýnir fjölgun glæpa og nauðgana undanfarna áratugi og við teljum það eindregið benda til þess. Ekki þarf að draga orsakasamhengið í nokkurn efa“ bætir hún við.

Samtökin sem hún er í forsvari fyrir kalla sig Saving Graceland og berjast fyrir slæmum tónlistarsmekk og frjálsum og óheftum áhrifum þyngdaraflsins. „Við teljum jafnframt nóg komið af frjálsum og óheftum þyngdaraflisma, gravitisma eða svokölluðu neo-gravity, eins og sá sem tröllríður samfélaginu um þessar mundir“ útskýrir Muriel. „Það er ótrúlegt hvernig fólk getur horft til skelfilegra viðburða líkt og snjóflóða, grjóthruns og jarðskjálfta og séð hin hræðilegu áhrif þyngdaraflsins á líf og limi fólks. Í Egyptalandi og víðar er algengt að sjá byggingar hrynja og drepa fólk vegna þessarar skelfilegu stefnu um óheft þyngdarafl. Þetta þarf augljóslega að stöðva sem og vísindasamfélagið sem heldur því fram að um einhvers konar náttúrulögmál sé að ræða“ segir Muriel.

Saving Graceland og tjaldbúðir þeirra hafa sett mark sitt á Memphis á undanförnum vikum. Hópurinn hefur sett upp tjaldbúðir við Graceland fyrir um tuttugu meðlimi hópsins. Þeir hafa jafnframt ekið um á átta strokka Cadillac blæjubíl og blastað Elvislögum á hæsta styrk og dreift ókeypis geisladiskum með lögum eftir Elvis Presley … og reyndar ABBA líka. Hópurinn hefur jafnframt haldið listagjörninga víða um borgina þar sem líkt er eftir ymsum hamförum sem fylgja óheftum gravitisma, og leika fólk sem grafist hefur í rústum húsa og bygginga.

Hópurinn segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá gestum og gangandi. Travis A. Bravis, bílasali í Kentucky, var í heimsókn í Memphis og varð fyrir miklum áhrifum af aðgerðum Saving Graceland. „ég hlustaði nánast eingöngu á Elvis á timabili og næstum grét þegar mér varð ljóst að ég hafði arkað inn á rangar götur tónlistar undanfarið“. „Einnig styð ég þau í baráttunni gegn óheftu þyngdarafli, og reyndar er ég ákveðið fórnarlamb sjálfur þegar ég lamaðist á hægri handlegg eftir slæma byltu í stiganum heima. Hún er andstyggileg þessi stefna stjórnvalda um óheft og frjálst þyngdarafl“ segir Travis.

Hópurinn lenti í heimspressunni þegar hann reyndi að velta um koll ráðhúsi Memphis borgar um koll þegar hann batt reipum um tvær myndarlegar jónískar súlur sem bera það uppi. Með því ætlaði hann að sýna fram á áhrif af óheftu þyngdarafli á þjóðfélagið. Það fór þó ekki betur en svo að kaðall sem slitnaði við átökin afhausaði 3 og limlesti 11 sem þar stóðu hjá. Muriel Heslop hefur nú verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi fyrir gjörninginn, en hún tekur á sig alla ábyrgð af aðgerðum hópsins. „Þetta sýnir nú bara hræsnina í þjóðfélaginu“ segir hún, „á meðan þyngdaraflsstefna stjórnvalda drepur hundruði á ári þurfum við að sæta ofsóknum fyrir einstaka brotin egg í viðleitni okkar“.

Já, ósanngirni heimsins eru engin takmörk sett.

Saving Graceland fílar t.a.m. ekki Immortal

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)