Náttúra Íslands hefur verið vinsælt umfjöllunarefni undanfarið og ekki er útlit fyrir að breyting verði á, ef eitthvað er mun hún líklega aukast. Hvort sem það tengist virkjunum, ferðaþjónustu, náttúruvernd eða öðru. En hvers virði er náttúran ef við höfum glatað öllum tengslum við hana ?
Stór hluti ungs fólks á Íslandi þekkir lítið sem ekkert til þeirrar stórbrotnu náttúru sem landið hefur upp á að bjóða, hvort sem það eru fjöll, firðir, eyjar, plöntur eða dýralíf. Breyttar áherslur í skólum, áhugaleysi eða hvað það er sem stuðlar þessari þróun hlýtur að vera áhyggjuefni.
Íslendingar hafa löngum stært sig af því að vera vel upplýst þjóð, er leggur metnað í að kynna sér menningu, siði, tungumál og náttúru annarra þjóða enda hefur það reynst okkur vel í alþjóðavæðingu nútímans. En þó má ekki gleyma að leggja rækt við eigin tungu, siði og náttúru.
Landið er uppfullt af undrum náttúrunnar, frá virkum eldfjöllum til stærsta jökuls Evrópu. Miklir fossar, heitir hverir og jökullón; stærstu súlu- og lundabyggðir í heiminum; hákarlar og hvalir eru allt einkennandi fyrir Ísland. Einnig má minnast á náttúrperlur líkt og Kerið, Ásbyrgi, Þingvelli, Látrabjarg o.fl
Saga okkar hefur verið nátengd náttúrunni alla tíð. Frá því að veita fæðu, hafa áhrif á búsetu, valda ótrúlegum skaða og alveg til þess að vera innblástur skálda og annarra mikilmenna alla tíð, þá sérstaklega í sjálfstæðisbaráttu landsins. Menn eins og Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson, Einar Benediktsson, Steinn Steinarr og Davíð Stefánsson hafa náð að fanga fegurð og mikilvægi náttúrunnar á ótrúlegan hátt í bundið mál. En erfitt er að meta ljóð þeirra til fulls ef lesandinn hefur misst svo gott sem öll tengsl við náttúruna.
Ásbyrgi, prýðin vors prúða lands,
perlan við straumanna festi,
frjótt eins og óðal hins fyrsta manns,
fléttar hér blómin í hamranna krans.
Strandbjörgin kveðjunni kasta á gesti
kringd eins og járn undan hesti.
Ég er hrædd um að ofurhuginn Einar Ben yrði fyrir vonbrigðum með erfingja þessa lands að þekkja hvorki mun á ýsu og þorski né fýl og máf, en geta greint á milli cappuccino og espresso án fyrirhafnar.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021