Þann 8. ágúst munu Ólympíuleikarnir 2008 vera settir í Peking og vafalaust með pompi og prakt eins og tíðkast. Undirbúningur leikanna í ár hefur ekki gengið áfallalaust enda er skemmst að minnast þeirra mótmæla sem einkennt hafa hlaupaleið Ólympíueldsins. Margir eru í vafa um siðferði þess að Kínverjar fái að halda slíkan viðburð sem hefur þótt tákn friðar og samstöðu þjóða óháð pólitískum aðgerðum. Ég ætla hins vegar ekki að blanda mér í þá umræðu en vonast til þess að Kínverjar fái með Leikunum ákveðna uppreisn æru og að í kjölfarið muni verða gengið til viðræðna um farsælan endi á Tíbet-deilunni.
Lukkudýr og einkennisorð hafa fylgt Leikunum um langt skeið og verður á því enginn undantekning í ár. Kínversk menning er Vesturlandabúum að mörgu leyti mjög framandi og bera lukkudýr Leikanna í ár þess merki. Lukkudýrin eru fimm talsins og bera saman nafnið Fuwa, sem svo skemmtilega vill til að þýðir einmitt lukkudýr. Ennfremur eru þau hlaðin táknrænu gildi eins og Kínverjum var von og vísa.
Í fyrsta lagi bera þau alla fimm liti Ólympíuhringjanna og vísa því líkt og þeir til heimsálfanna (sem eru þó vissulega sjö en við förum ekki nánar í það). Í öðru lagi tákna fígúrurnar í grófum dráttum fimm frumefni kínverskrar sögu, sem eru: jörð, vatn, málmur, eldur og tré. Í þriðja lagi er útlit þeirra sérstætt og vísar þar til fjögurra dýra (fisks, risapöndu, tíbeskrar antilópu og svölu) sem eru einkennandi fyrir menningu þjóðarinnar en sú síðasta er þó ekki úr dýraríkinu og líkist þess í stað eldi. Á þessu hef ég einfaldlega enga skýringu. Hjá Kínverjunum er þó ekki allt þegar þrennt er og rúsínan í enda þessarar gildishlöðnu pylsu eru nöfn dýranna. Þau heita Beibei, Jingjing, Huanhuan, Yingying og Nini, og eins og glöggir lesendur taka eftir þá mynda fyrri hlutar nafnanna Beijing huanying ni, sem þýðir Peking fagnar komu ykkar. Hreint út sagt stórskemmtilega hresst og þess væri óskandi að Íslendingar fengju á einhverjum tímapunkti möguleika til slíkrar hagyrðingar á alþjóðlegum vettvangi.
Þess gæti þó orðið langt að bíða og enn sem komið er verðum við að láta okkur nægja að hvetja áfram íslenskt afreksfólk sem á Leikunum keppir. Í ár mun 31 íþróttamaður koma fram fyrir Íslands hönd; 19 úr handboltalandsliði karla, 8 sundgarpar, spjótkastari, sleggjukastari, stangastökkvari og júdómaður. Flestra augu munu líkast til beinast að “strákunum okkar” (eða þeirra, fer svona eftir því hvernig gengur) en þegar öll kurl verða komin til grafar þykir næsta ólíklegt að fjórða Ólympíumedalían muni falla okkur í skaut að þessu sinni. Með þessu er þó á engan hátt verið að gera lítið úr afreksfólkinu sem hafa öll sýnt ótrúlegan gjörvugleik með því að komast á þetta mót mótanna.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010