Sá árvissi viðburður hefur nú skotið upp kollinum að fréttir eru farnar að berast af hópi atvinnumótmælenda sem búnir eru að hreiðra um sig í nálægð virkjanaframkvæmda. Hópurinn hefur nú komið sér fyrir og slegið upp svokölluðum aðgerðabúðum á Hellisheiði. Því miður er staðreyndin sú að þrátt fyrir góðan hug gera þessir ágætu mótmælendur gera líklega meira ógagn en gagn.
Aðgerðir mótmælendanna undanfarin ár hafa iðulega farið úr böndunum og litið mjög illa út á opinberlega. Unnin hafa verið skemmdaverk, lög hafa verið brotin og mótmælin hafa iðulega litið út sem farsakenndur og óskipulagður skrípaleikur furðulegs fólks. Því miður þá er þetta bláköld staðreynd, þó vissulega sé mikilvægt að vernda fagra náttúru landsins upp að vissu marki.
Þessi ágæti hópur er því á góðri leið með að skemma fyrir stórum hluta þjóðarinnar sem vill vernda náttúruna. Því á meðan lítill hópur öfgafólks hrópar og kallar – dregur það úr áhrifamætti stórs hóps fólks og náttúruverndarsinna sem vinna að markmiðum sínum á málefnalegan og gagnlegan hátt.
Svo verður að viðurkennast að það er alltaf hálf kauðskt að heyra um komu atvinnumótmælenda frá hinum ýmsu heimshornum að hjálpa til við að mótmæla íslenskum virkjunum og álverum. Í fyrsta lagi kviknar óneytanlega upp sú spurning hvort stuðningurinn við málsstaðinn sé svo lítill á Íslandi að sækja þurfi erlendan liðsauka til að ná sæmilegum fjölda (sem þó virðist nú oftast nokkuð ýktur af sjónvarpsmyndum af dæma). Í öðru lagi, þá er mun umhverfisvænna í alþjóðlegu samhengi að byggja virkjanir og stóriðju á Íslandi, en á flestum ef ekki öllum öðrum stöðum í heiminum. Því okkar virkjanir og álver eru einfaldlega miklu umhverfisvænni en stóriðja af sambærilegri stærðargráðu annars staðar í heiminum.
Svo er það hinn vinkillinn. Fylgjendur stóriðju virðast oft í blindni treysta allt of mikið á hana sem lausn við hinum ýmsu vandamálum s.s. atvinnuleysi og byggðaflótta. Það hefur alltaf loðað nokkuð við okkur Íslendinga að vilja setja flest eggin í sömu körfu. Fyrst þráuðust menn við landbúnað fram eftir öldum, síðan var það sjómennskan, svo áttu allir að fara í útrás, núna er það orkan og álið. Allt er þetta gott og blessað, en það má samt segja að þetta beri nokkurn keim af hjarðhegðun okkar annars ágætu íslensku rollu.
Það er alltof algengt í þessari umræðu, að fólki sé stillt upp við vegg og þurfi að vera með eða á móti. Með stóriðju, þá á móti náttúruvernd. Með náttúruvernd, þá á móti stóriðju. En er ekki bara bæði betra? Það á að vera vel mögulegt í siðmenntuðu landi að tvinna þetta saman á skynsaman hátt.
Til langtíma litið verður að dreifa eggjunum og áhættunni jafnt og nýta öll þau tækifæri sem gefast. Það verður að viðurkennast að á meðan við höfum gleymt okkur í með og á móti umræðunni, höfum við ekki alltaf nýtt okkur hugvit og þekkingu í sama mæli og við höfum treyst á jarðneskar og fagurfræðilegar auðlindir landsins. Við þurfum að treysta meira á auðlindir hugans.
Það er algjörlega nauðsynlegt að virkja auðlindirnar og flytja út orku í formi áls. Það er líka algjörlega nauðsynlegt að huga að náttúrunni og vernda helstu perlur landsins. Öfgar í báðar áttir þarf að varast og ólíkir pólar verða að geta komið saman og rætt um málin á heilbrigðan og skynsaman hátt án skyrkasts, úthrópana og hlekkjana við vinnuvélar.
Horfum á bæði álverin og náttúruverndina sem tækifæri sem hægt er að samtvinna en gleymum því ekki á meðan að nýta til fullnustu auðlindir hugans, menntunar og þekkingar.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010