Akraneskaupstaður hefur ákveðið að sýna öllu ungu fólki rauða spjaldið áður en það fékk tækifærið til að sanna sig. Þegar bæjaryfirvöld setja sig í dómarasæti og ákveða að dæma hóp einstaklinga fyrir ekkert nema aldurinn, koma nýleg orð Guðjóns Þórðarsonar óneitanlega upp í hugann. „Það þýðir ekkert að tala við þessi…“
Akraneskaupstaður hefur ákveðið að fylgja hinu ömurlega fordæmi Akureyrar og refsa öllu fullorðnu fólki á aldrinum 18-23 ára fyrir það að vera of ungt. Reyndar geta menn reynt að sleppa við refsinguna ef þeir eignast börn, en þeir sem hafa ekki fundið sér maka, eða geta ekki eignast börn verða bara að sitja heima.
Að kalla þessa ákvörðun heimskulega væri henni hrós, enda mundi það gefa til kynna að hún væri vanhugsuð. Ákvörðunin er hins vegar sett fram af meðvitaðri illsku, mannhatri og vanvirðingu gagnvart ungu fólki. Hún lýsir jafnframt viðurstyggilegum og órökstuddum fordómum í garð þeirra þúsunda góðra og heiðvirðra, fullorðinna Íslendinga sem hafa ekkert til sakar unnið annað en að fæðast röngum meginn við einhverja fáranlega dagsetningu sem fundin var upp á miðaldra kjánum.
Í stað þess að líta í eiginn barm og leita skýringa á misjafnri umgengni og lítilsvirðingu í garð laga í bænum seinustu ár hefur bæjarstjórnin ákeðið að benda á ákveðinn hóp fólks og öskra: „Sjáið! Þetta var þeim að kenna. Þau bera sökina á ástandinu. Þau eru ógeðslegt fólk. Bönnum þeim að koma!“
Aldurstakmark á Hróaskeldu er 15 ár. Í fyrra var tilkynnt um 6 nauðganir á hátíðinni er þar eru um 100.000 manns sem gista í tjöldum og skemmta sér á átta daga djammi. Mest er raunar um ofbeldi fyrstu dagana áður en hin eiginlega fjögurra daga tónlistarhátíð hefst. Tölur yfir líkamsárásir eru eru sömuleiðis svipaðar eða lægri og á dæmigerðri íslenskri útihátíð þrátt fyrir að gestir á þeim séu gjarnan 20 sinnum færri. Þetta þýðir að Hróskelda er 20 sinnum öruggari en íslenskar útihátíðir. Hvernig væri að leita þangað að hugmyndum um hvernig eigi að gera hlutina rétt, í stað þess ala á fordómu fordómum og hatri í garð ungs fólks?
Bæjarstjórn Akranes er skömm af þessari ömurlegu ákvörðun sinni. Hún eykur gremju ungs fólks í garð samfélagsins og lætur því finnast sem það sé illa liðið og óvelkomið. Slík tilfinning er ekki líkleg til að auka virðingu ungs fólks fyrir lögum samfélagsins og eignum annarra. Að lokum fælir hún ungt fólk frá stöðum þar sem það getur skemmt sér undir eftirlit og með hefur aðgengi að öryggisgæslu, læknisþjónustu og hreinlætisaðstöðu.
En ætli það sé ekki lagi þótt konum sé nauðgað og menn lemji hvor annan til óbóta, útældir, skítugir og fullir. Svo lengi sem það gerist ekki á Akranesi.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021