Í fréttum í vikunni var fjallað um skýrslu sem gefin var út af greiningardeild Ríkislögreglustjóra um hryðjuverkaógn og skipulagða glæpastarfsemi hér á landi. Í skýrslunni kom fram að hætta á hryðjuverkum var metin lítil en þó tekið sérstaklega fram að ekki séu til forvirkar heimildir til rannsókna í þessum málaflokki.
Eins og staðan er í dag þarf að liggja fyrir rökstuddur grunur um afbrot til að beita megi grunaðan mann þvingunaraðgerðum, en til þeirra teljast m.a. haldlagning, líkamsleit handtaka, gæsluvarðhald, símhleranir og annað eftirlit með grunuðum glæpamönnum. Af orðum greiningardeildarinnar má skilja að leitað sé eftir því að lögfestar séu heimildir lögreglu til að fyrirbyggja hryðjuverk með þvingunaraðgerðum áður en rökstuddur grunur liggi fyrir.
Sönnun um rökstuddan grun er samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar ekkert sérlega erfið í hinum hefðbundnu sakamálum, nægjanlegt er t.d. að sýna fram á að lýsing sjónarvotta passi við hinn grunaða og ekki þurfa grundsemdirnar að vera óyggjandi. Hryðjuverk eru hins vegar afar óhefðbundin sakamál og er kapp lagt á að stöðva þau í fæðingu. Þau eru oftar en ekki afar vel skipulögð og leggja hryðjuverkamenn mikið á sig til að hylja spor sín. Ekki er því víst að hefðbundin úrræði lögreglu dugi til að koma í veg fyrir slíka glæpi.
Máli sínu til rökstuðnings vísar greiningardeildin til þess að hin Norðurlöndin hafi öll lögleitt slíkar heimildir. Benda verður þó á að hin Norðurlöndin eru í allt annarri stöðu en Ísland. Danskar myndasögur hafa ekki vakið mikla lukku í Austurlöndum upp á síðkastið og virk þátttaka danska, sænska og norska hersins í átökum í Afganistan gera það ekki heldur. Það vekur meiri úlfúð en vera Íslands á lista hinna staðföstu þjóða og afmörkuð aðkoma landsinsað einstökum verkefnum í Austurlöndum mun nokkurn tímann gera.
Hinsvegar mun alltaf vera til staðar þetta – ef. Ef eitthvað gerist á litla saklausa Íslandi verði að vera hægt að grípa inn í áður en það er um seinan. En líkt og greiningardeildin sagði sjálf þá er hryðjuverkaógn á Íslandi afar lítil. Fórnarkostnaðurinn er hins vegar mikill eins og áður hefur komið fram hér á Deiglunni í ritstjórnpistlinum Leynigreiningarþjónusta Íslands, en þar segir:
„Eins og áður sagði þá eru slíkar forvirkar rannsóknaraðgerðir í dag ólöglegar, en ef þetta yrði samþykkt þá hefði lögreglan ekki eingöngu heimildir til að rannsaka hugsanlega glæpamenn heldur líka heimild til að handtaka, yfirheyra, hlera og leita hjá viðkomandi. Slíkar valdheimildir hljóta að teljast afar varasamar þar sem þær bjóða heim misnotkun, misrétti og ofsóknum. […]Þrátt fyrir að möguleikin á misnotkun sé kannski fjarlægur í dag þá vitum við ekki hverjir munu vera við völd í framtíðinni eða hverjir myndu veljast til starfa hjá fyrirhugaðri leyniþjónustu. Sagan kennir okkar að með slíkar valdheimildir í vopnabúrinu þá getur einn óvandaður einstaklingur gert fáheyrðan skaða.“
Deiglan vakti fyrst athygli á þessu máli þegar það kom fyrst fram fyrir 6 árum síðan. Niðurstaðan þá var sú sama og hún er nú – lögleiðing slíkra forvirkra rannsóknarheimilda hefur í för með sér hættu á misnotkun og ekki er nægjanlegt tilefni til að lögleiða slíkar heimildir í íslenska löggjöf.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009