Fyrir stuttu síðan samþykkti sænska þingið mjög svo umdeild lög um hleranir sem vekja upp áleitnar spurningar. Þetta er langt í frá eina dæmið um frelsisheftandi lög. Fjölmörg önnur lönd hafa einnig verið að keppast um að samþykkja lög sem miða að auknu eftirliti með borgurum og mögulegri frelsisskerðingu án dóms og laga í styttri og lengri tíma. Flest öll lög í þessum dúr eru sett fram í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum. Þarna er hárfín grá lína milli öryggis og frelsis sem ekki má stíga yfir.
Stöðug mótmæli hafa verið í Svíþjóð síðustu vikur eftir að þar voru samþykkt lög, með naumum meirihluta, um hleranir. Lögin veita leyniþjónustu Svía heimild til þess að hlera, án sérstakrar heimildar, öll samskipti til og frá Svíþjóð. Í þessu felst hlerun á síma, skoðun á sms smáskilaboðum, faxi og tölvupósti. Vissulega mjög róttæk lög og alveg dagljóst að um töluverða frelsisskerðingu er að ræða að mati undirritaðs. Úps, maður þarf kannski að fara að vanda orðavalið betur í tölvupósti til sænskra vina.
Sænsk stjórnvöld segja að einungis verði fylgst með samskiptum erlendis frá og engin samtöl né tölvupóstar verði hleraðir innanlands í Svíþjóð. Málið er þó á mjög grárri línu, því í fyrsta lagi er erfitt að fylgjast nákvæmlega með því hvaða samskipti eiga sér stað innanlands. Hvað með t.d. ef væntir hryðjuverkamenn erlendis tengjast við sænsk sýndarnet (e. Virtual Private Network) og hafa þaðan “innanlandssamskipti” við aðra aðila í Svíþjóð. Í öðru lagi verður mjög snúið að hafa eftirlit með eftirlitinu. Talið er að mjög erfitt verði að skilja á milli og koma í veg fyrir að hægt verði að hlera innanlandssamskipti án þess að upp komist.
Fylgjendur laganna bera fyrir sig að slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar til að tryggja öryggi almennra borgara. Vissulega er nauðsynlegt að tryggja öryggi borgara. En hvað með frelsi almennra borgara. Eins og í öllu öðru er ekki bara nóg að skoða virðið sem maður fær – það verður líka að skoða hvort verðið sem greitt er fyrir sé of hátt. Í þessu tilfelli, sem og mörgum öðrum í fleiri löndum, er persónufrelsinu fórnað fyrir óljóst meira öryggi. Spurning hvort stjórnvöld í Svíþjóð og víða annars staðar séu að kaupa köttinn í sekknum fyrir borgara sína. Hjarðhegðun stjórnvalda víða í heiminum?
Án þess að ætla að búa til samsæriskenningar og dómadagsspár, langt því frá, þá verður að viðurkennast að undanfarin ár hefur dæmunum fjölgað skuggalega mikið um skerðingu tjáningar- og persónufrelsis í heiminum. Lög um auknar hleranir, fingrafaragagnagrunnar og ljósmyndir af ferðamönnum, heimildir til að fangelsa menn í töluverðan tíma án dómsúrskurða, leynilegar fjárveitingar á bandaríkjaþingi og sitthvað fleira.
Stóri bróðir fylgist sífellt betur með því hvað ég gerði af mér, eða ekki af mér, í gær.
Það er hárfín grá lína á milli öryggis og frelsis almennra borgara sem nauðsynlegt er að stíga ekki yfir. Við erum komin skuggalega nálægt þessari línu.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010