Umfjöllun um alþjóðastjórnmál er yfirhöfuð frekar slöpp hérlendis. Þessum lítilfjörlega og ómerkilega pistli er ætlað að bæta örlítið þar úr. Hér á eftir verður fjallað með afskaplega óskipulegum og einfölduðum hætti um eina af kenningum alþjóðasamskiptanna og hún borin saman við realisma.
Plúralismi er ein af þremur helstu kenningarhópunum í alþjóðasamskiptum í dag ásamt realisma og strúktúralisma. Hann á rætur sínar að rekja til seinni hluta 7. áratugarins. Kenningin er náskyld plúralisma innan stjórnmálafræðinnar og rekja má uppruna hennar þangað. Þeir sem aðhyllast kenninguna kalla sig yfirhöfuð ekki plúralista. Hugtakið varð fyrst og fremst til til að aðgreina þá sem aðhylltust svipuð sjónarmið í alþjóðasamskiptum frá öðrum. Innan plúralismans rúmast ýmsar stefnur og straumar en það sem sameinar plúralista fyrst og fremst er andstaðan við realismann. Plúralistar álíta að realisminn gefi ekki fullnægjandi skýringu á alþjóðasamskiptum dagsins í dag, sjónarhorn stefnunnar sé tímaskekkja og viðfangsefnið einfaldað um of. Flestir plúralistar aðhyllast positivisma, þeir leitast við að lýsa heiminum eins og hann er og hefur því stefnan ekkert markmið í sjálfu sér líkt og realisminn.
Ástæða þess að stefnan nefnist þessu nafni er sú að andstætt realismanum sem telur ríki fyrst og fremst gerendurna á sviði alþjóðasamskiptanna, lítur stefnan svo á að gerendurnir séu fleiri. Ríkjasamtök, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, eru dæmi um aðra gerendur. Alþjóðleg stórfyrirtæki svo sem IBM og svokölluð óháð félagasamtök (e. NGO´s) eins og Amnesty International spila einnig rullu. Einnig hefur verið bent á hryðjuverkahópa og kaþólsku kirkjuna sem gerendur í alþjóðasamskiptum. Taka verður þó fram að fylgismenn plúralismans líta enn á ríkið sem mikilvægan geranda.
Eitt af því fyrsta sem plúralistar bentu á er að ekki sé hægt að líta á ríki sem einn geranda sem mótar stefnu eftir rökrænu ákvarðanatökuferli líkt og margir realistar geri. Bent hefur verið á að hægt sé að líkja ríki við stjórnanda hljómsveitar, hans hlutverk sé ekki að skapa tónlist heldur að stilla saman strengi hljómsveitarinnar. Það er því ekki ríkið sem skapar hagsmunina heldur er hlutverk þess að halda utan um þá, þ.e. stilla saman strengina. Jafnframt hefur verið bent á að til að skilja utanríkisstefnu ríkis verði að skoða málamiðlanir milli ríkisstofnana í harðri samkeppni um að ná fram því sem þær telja vera hagsmunamál sem vert er að berjast fyrir. Stofnanirnar séu ekki hlutlausar heldur berjist um að fá sínum stefnumálum framgengt í utanríkisstefnu ríkisins. Það sé því ekki rökræn ákvörðunartaka byggð á hlutlausum upplýsingum sem á sér stað innan ríkjanna heldur ákvarðanataka sem byggist fyrst og fremst á málamiðlunum.
Plúralisminn gagnrýnir heimsmynd realismans. Hann hafnar hinu svokallaða billjardkúlumódeli og telur að alþjóðasamskipti líkist frekar kóngulóarvef. Ríki séu háð hvort öðru. Það sem gerist í einu ríki sérstaklega á sviði efnahags- og umhverfismála hafi áhrif á önnur ríki. Ríki séu háð innbyrðis. Ríki hafa því ekki fullkomið sjálfsforræði. Þessi áhersla á að ríki séu háð hvort öðru hefur dregið athygli að tveimur atriðum, þ.e. sameiginlegum hagsmunum, t.d. auðlindanýtingu hafsins, og samskiptum þvert á landamæri vegna þróunar á sviði fjarskipta, samgangna og viðskipta
Plúralistar líta ekki einungis til svokallaðrar hápólitíkur (e. high politics), sem fjallar að mestu leyti um stríð, öryggi og hernaðarmátt, líkt og realisminn gerir. Plúralisminn beinir einnig spjótum sínum að svokallaðri lágpólitík (e. low politics) sem snýr að málaflokkum eins og efnahags- og umhverfismálum og velferð manna. Þrátt fyrir það telja plúralistar að hernaðarmáttur sé mikilvægur. Hernaðarmáttur sé hins vegar ekki eins mikilvægur og áður þar sem valdbeiting við vissar aðstæður myndi ekki áorka neinu eða hreinlega ekki lengur vera valkostur í vissum aðstæðum.
Þeir fylgismenn plúralismans sem ganga hvað lengst, tala um alþjóðasamfélag og sumir þeirra vilja jafnvel alheimsstjórn. Plúralistar dásama alþjóðastofnanir, t.d. Sameinuðu þjóðirnar, þar sem hægt er að þjóna sameiginlegum hagsmunum mannkyns. Plúralistar benda á að realisminn líti ekki til alþjóðlegrar samvinnu svo sem innan vébanda Sameinuðu þjóðanna þegar fylgismenn hans tala um stjórnlaus alþjóðasamskipti fullvaldra ríkja. Jafnframt benda plúralistar á að stríð sé ekki það eina sem á sér stað milli ríkja. Átök eru þó enn mikilvægur málaflokkur í augum plúralista. Nálgunin er þó önnur. Plúralistar benda á þjóðarétt, alþjóðlega dómstóla og framlag Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem dæmi um hvernig reynt er að leysa deilur með samvinnu í stað átaka.
Plúralistar benda á að grundvallarreglan í alþjóðasamskiptum sé að ríki virði landamærahelgi og fullveldi annarra ríkja. Flest ríki virði þessar reglur þar sem það er þeim til hagsbóta. Ef allir gerendurnir í alþjóðasamskiptum myndu virða þessar reglur þá væri komið á sameiginlegt öryggi og hægt er að sneiða hjá sjónarmiði realismans um stríð allra gegn öllum.
Hægt er að telja upp fleiri dæmi um hvernig plúralisminn hefur gagnrýnt realismann. Hér verður hins vegar staðar numið. Það sem aðgreinir etv. plúralismann mest frá realismanum þegar á heildina er litið er að sýn plúralismans er mun bjartari á alþjóðasamskipti en sýn realismans. Einhver myndi e.t.v. segja að plúralistar væru barnalegri en realistar.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009