Írar höfnuðu Lissabon-sáttmálanum svonefnda í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Í öðrum aðildarríkjum ESB hefur sáttmálinn verið afgreiddur þannig að þjóðþingin samþykktu sáttmálann fyrir sitt leyti en eina þjóðin sem hefur kosið beint um sáttmálann hafnar honum. Það er út af fyrir sig umhugsunarefni.
Ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um mál á borð við Lissabon-sáttmálann er augljós. Lissabon-sáttmálinn boðar efnislega sömu breytingar á sambandinu og stjórnarskrá Evrópusambandsins sem felld var í þjóðaratkvæðagreiðslu í bæði Hollandi og Frakklandi fyrir nokkrum árum. Málið er því risastórt. Þótt niðurstaðan á Írlandi sé ráðamönnum í Brussel eflaust mikil vonbrigði hefði ekki verið ráðlegt að lauma stjórnarskránni bakdyramegin í búning sáttmála sem íbúar Evrópu fengju ekki að taka afstöðu til.
Lissabon-sáttmálinn þykir nokkuð flókinn aflestrar og strax mátti heyra þann spuna eftir að niðurstaðan varð ljós að írska þjóðin hafi einfaldlega ekki skilið út á hvað hann gekk. Þetta er auðvitað fráleit nálgun því það heyrir væntanlega upp á Evrópusambandið og baráttumenn fyrir því að sáttmálinn yrði samþykktur að útskýra út á hvað hann gangi. Fyrir þá sem vildu kynna sér sáttmálann var lengst af einungis hægt að lesa langan lista af breytingartillögum á tilteknum ákvæðum annarra sáttmála og löggjafar ESB, álíka skiljanlegt og tæknistaðall í raforkuveri. Skammt er síðan að unnt var að nálgast heildarútgáfu af því hvernig löggjöfin myndi líta út.
Þetta er ágætis dæmi um ganginn og viðhorfið innan stjórnkerfis Evrópusambandsins. Kosningaþátttaka er undir 50% í kosningum til Evrópuþingsins. Pólitíkin virkar þannig að sérfræðingarnir skrifa upp staðlana og reglurnar, stjórnmálamennirnir kroppa aðeins í orðalagið og blessa afraksturinn en íbúarnir mæta afgangi. Þeir eiga ekki að vera flækjast fyrir fagmönnunum. Niðurstaðan á Írlandi nú, rétt eins og í Frakklandi og Hollandi fyrir þremur árum, er ágætis áminning um að pólitíska elítan er í hættu á að einangrast með þessu viðhorfi.
Sú braut sem Evrópusambandið er að feta í átt til sambandsríkis með sífellt minnkandi áhrifum aðildarríkjanna, er ekki öllum að skapi. Það þýðir ekki að andstæðingar sáttmálans séu sjálfkrafa andstæðingar sambandsins eða evrópskrar samvinnu. Í umræðum um Evrópumál hér heima er yfirleitt reynt að búa til þá valkosti að annars vegar séu þeir sem vilji Evrópusambandið og hinir sem vilji það ekki – annar hópurinn er alþjóðasinnaður og raunsær en hinn heimóttalegur og þröngsýnn.
Ummæli írsks pípulagningarmanns sem ætlaði að segja nei í atkvæðagreiðslunni á Írlandi vegna þess að ESB hefði svipt hann réttinum til að reykja á börum og keyra eftir nokkra bjóra taldi Egill Helgason t.d. vera dæmigert viðhorf fyrir andstæðinga sáttmálans. Píparinn var vitaskuld líka á móti öllum Pólverjunum sem hafa komið til Írlands síðustu ár og hirt öll störfin enda vitnaði Magnús Þór Hafsteinsson í hann af miklum móð. Þetta eru vitaskuld þægilegir andstæðingar – fordómafullur pípari og flóttamannafrömuðurinn Magnús Þór.
Miklu réttari lýsing á ólíkum stefnum varðandi þróun ESB er að annars vegar eru „federalistar“, þ.e. þeir sem vilja sjá ESB þróast í átt að sambandsríki en á hinum hinum endanum eru þeir sem styðja samstarf og samvinnu Evrópuþjóða, sérstaklega á sviði verslunar og viðskipta, en setja spurningamerki við að búa til þjóðríkið Evrópu.
EES-samningurinn er í anda síðarnefndu hugmyndanna enda miðar hann að því að fella niður múra og hindranir milli þjóða og skapa einstaklingunum svigrúm til þess að vinna, ferðast og freista gæfunnar innan álfunnar. Í raun er sú hugsun hin sanna Evrópuhugsun – um bandalag frjálsra og metnaðarfullra þjóða sem hafa meiri hag af því að starfa saman en hver í sínu horni. Aukið vald til yfirþjóðlegu stofnananna í Brussel er ekki endilega rétta leiðin áfram á þeirri braut.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021