Fyrsta vikublað The Economist í aprílmánuði síðastliðnum fjallaði um málefni sem skriðið hefur hægt og bítandi upp á yfirborðið á síðustu misserum. Fjármálalæsi, eða financial literacy, er hugtak sem fáir þekkja, þó svo flestir – ef ekki allir – fjárhagslega sjálfstæðir einstaklingar séu bundnir því.
Fjármálalæsi – eða öllur heldur skortir á því – er eitt af því sem talið er vera einn orsakavaldur neðanmálslánakreppunnar sem gengið hefur yfir hinn vestræna heim á síðustu misserum. Það er a.m.k. álit John Bryant, stofnanda sjálfeignastofnunarinnar HOPE í Bandaríkjunum árið 1992, sem hefur síðan uppþotanna í Los Angeles sama ár hefur gefið efnaminna fólki ráð og þjálfun í meðhöndlun peninga og skipulagi eigin fjáhags.
Fjöldamargar rannsóknir benda til verulegs þekkingarskorts á fjármagni, eðli þess og virkni. Það er „mjög viðtekin staðreynd“ að „stór hluti hins enskumælandi heims sé óupplýstur um fjármál“ skrifar hinn þekkti hagfræði- og fjármálasagnfræðingur Niall Ferguson við Harvard háskóla í nýrri bók sinni „The Ascent of Money“. Þar eru lögð fyrir ótal rök fyrir þessari fullyrðinu, t.a.m. því að fjórir af hverjum tíu Bandaríkjamönnum borgar ekki kreditkortareikninginn sinn að fullu við hver mánaðarmót þrátt fyrir íþyngjandi dráttarvexti sem því fylgir. Hvað ætli hlutfallið sé hjá hinum lánaglöðu Frónverjum?
Þetta þekkingarleysi veldur litlum skilningi á þeirri áhættu sem felst í eigin skuldsetningu og hvaða utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á afborganir. Og með þeim afleiðingum að fjöldamargir þurfa að lýsa yfir persónulegu gjaldþroti þegar kreppir að.
Í Bandaríkjunum eru menn að bregðast við vandanum. Í janúar síðastliðnum skipaði Bandaríkjaforseti fyrrnefndan Bryant varaformann nýrrar nefndar um fjármálalæsi almennings. Þetta voru ein af viðbrögðum bandarískra stjórnvalda við neðanmálslánakrísunnar sem þar hefur gengið yfir. Og Bandaríkin eru ekki eina landið sem er að átta sig á þörfinni fyrir auknu fjármálalæsi. Ríkisstjórnir Breta og Rússa og fleiri þjóða eru að undirbúa aðgerðir til að auka fjármálalæsi þegna sinna.
Ferguson kennir menntakerfinu að megninu til um fjármálaólæsi vestrænna (og í raun allra) þjóða. Bretar og Bandaríkjamenn klára skólagöngu sína mikið til án þess að hafa lært neitt um fjármál. Samt eru fjármál einn helsti grundvöllur mannlegrar tilveru í frjálsum hagkerfum nútímans. Gallinn er hins sá, að mati Richard Thaler, hegðunarhagfræðings við Chicagoháskóla, að almennt fjármálalæsi er mikið til óraunhæft markmið, að minnsta kosti í þeim stóru fjárhagslegu ákvörðunum sem fólk stendur frammi fyrir í gegnum ævina. Fjármál séu í raun það margþætt og flókin, að betra sé fyrir stjórnvöld að einfalda þau eftir megni.
Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til þess hvort sé betra. En spurning er sú hvort ekki sé ástæða fyrir íslensk stjórnvöld að huga að fjármálalæsi sinnar eigin þjóðar. Hvort sem það felur í sér aukna þekkingu eða einfaldari umgjörð. Það er a.m.k. ekki eðlilegt fyrir ungan nýútskrifaðan verkfræðing að kynnast hugtakinu ‘verðtrygging’ við fyrstu íbúðarkaup um miðjan þrítugsaldur, svo tekið sé nærtækt og persónulegt dæmi.
Greinin í The Economist
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021