Á föstudaginn hækkaði verð á olíu um nærri $11 úr $127 í $138 á tunnu. Þetta er meiri hækkun á verði olíu á einum degi en áður hefur orðið. Verð á olíu hefur nú hækkað um ríflega 40% frá upphafi þessa árs. Það stóð í um $90 um síðustu áramót. Tólf mánuðum fyrr var verðið $60. Um áramótin 1998-1999 var verð á olíu aðeins $12. Verð á olíu hefur því tífaldast á tæpum áratug.
Getur verið að þessar gegndarlausu hækkanir haldi áfram? Hversu hátt getur verð á olíu eiginlega farið?
Þessi mikla hækkun á föstudaginn kom mörgum í opna skjöldu. Olíuverð hafði sigið nokkuð síðustu vikur. Serfræðingar höfðu sumir hverjir byrjað að spá því að verð á olíu hefði náð toppi. Þessar spár voru meðal annars byggðar á því að sterkar vísbendingar hafa verið að koma fram um að hátt verð á olíu sé farið að hafa veruleg áhrif á neyslu olíu.
En það má augljóslega enn lítið út af bregða. Olíuverðshækkunin á föstudaginn átti að hluta til rætur sínar að rekja til aukinnar spennu í miðaustulöndum vegna ummæla háttsets stjórmálamans í Ísrael um að árás á Íran væri „óumflýjanleg“ ef stjórnvöld í Íran héldu áfram á sömu braut í kjarnorkumálum.
Íran er næst stærsta olíuframleiðsluríki OPEC. Árás Ísraela eða Bandaríkjamanna á Íran gæti því haft gríðalegt áhrif á olíuverð. Ef slík árás verður á þessu ári er ekki ólíklegt að verð á olíu fari yfir $200 á tunnu. Í dag eru líkurnar á loftárásum á Íran fyrir lok þessa árs um 29% á intrade.com.
Til lengri tíma er hins vegar ólíklegt að verð á olíu haldist þetta hátt nema að ríki heims leggi verulegan skatt á útblástu koltvísýrings. Hátt verð olíu hefur leitt til þess að nú er hagkvæmt að bora eftir olíu undir sjávarbotni á miklu dýpi. Einnig er nú mjög hagkvæmt að framleiða olíu úr svokölluðum olíusandi í Kanada. En mikilvægast er að nú er líklega orðið hagkvæmt að framleiða olíu úr kolum. Raunar er talið að framleiðsla olíu úr kolum sé hagkvæm svo framarlega sem verð á olíu haldist yfir $30 til lengri tíma.
Olíulindir heims eru af skornum skammti. En þekktur kolaforði heims er gríðarlega mikill. Mannkynið getur því framleitt nægju sína af eldsneyti úr kolum í mjög langan tíma.
Einn helsti ókosturinn við framleiðslu eldsneytis úr kolum er að slík framleiðsla er afskaplega orkufrek. Það lætur nærri að heildarútblástur af völdum eins lítra af eldsneyti sem framleiddur er úr kolum sé tvöfalt meiri en útblástur af völdum eins lítra af hefðbundnu eldsneyti sem framleitt er úr olíu. Þetta þýðir að aukin notkun kola við framleiðslu eldsneytis mun auka til muna heildarútblástur gróðurhúsalofttegunda nema eitthvað sé að gert.
Allt bendir til þess að kaflaskil verði í afstöðu bandarískra stjórnvalda til hlýnunar jarðar af mannavöldum þegar annað hvort Barak Obama eða John McCain tekur við sem forseti Bandaríkjanna á næsta ári. Flestir búast þess vegna við því að einhvers konar gjald verði sett á útblástur gróðurhúsalofttegunda aður en langt um líður. Hversu hátt þetta gjald er mun ráða miklu um það hversu hátt verð á olíu verður til lengri tíma.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009