Það er EM-dagur á Deiglunni í dag og líkast víða annars staðar í Evrópu. Á mótinu munu margir af bestu knattspyrnumönnum heims etja kappi fyrir hönd þjóða sinna en einnig rísandi stjörnur, leikmenn framtíðarinnar.
Þar sem við Íslendingar eigum ekki, og munum líklega aldrei eiga, fulltrúa á EM í knattspyrnu er ágætt fyrir okkur sem heima sitjum að vita hverjum verður skemmtilegast að fylgjast með. Hvaða lið eru að spila skemmtilegasta boltann? Hvaða leikmenn munu standa upp úr og stíga fram og síðast en ekki síst hverjir gætu komið á óvart?
Ef við tökum þetta í réttri röð þá er bara einn upphafspunktur, Spánn. Spænska landsliðið er án mikils vafa mest spennandi knattspyrnuliðið á Evrópumótinu í ár. Liðið hefur oftar en ekki þótt hafa sterkan mannskap og jafnvel talið sigurstranglegt, bæði á Evrópumótum og Heimsmeistaramótum, en aðeins einu sinni hefur liðið staðið upp sem sigurvegari. Það var á EM 1964 þegar Spánverjar lögðu Sovétríkin að velli 2-1. Önnur lið sem verða að teljast líkleg til árangurs á mótinu eru: Portúgal, Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Holland. Það sem vekur mesta athygli á meðal þessara “líklegu” sigurvegara, er að þrjár síðastnefndu þjóðirnar eru saman í C-riðli mótsins ásamt Rúmeníu. Þar er því á ferðinni hinn svo kallaði “dauðariðill” mótsins og þrátt fyrir að Rúmenar hafi á efnilegu liði að skipa verður að áætla sem svo að möguleikar þeirra séu mjög takmarkaðir.
Sextán lið mæta til móts og flest eru þau skipuð einni eða fleiri knattspyrnustjörnum. Ef eitthvað verður að marka nýliðið tímabil evrópskri knattspyrnu eru nokkrir leikmenn sem munu heilla áhorfendur meira en aðrir næsta mánuðinn. Fyrstan ber að telja Portúgalan Cristiano Ronaldo en hann átti hreint út sagt ótrúlegt tímabil, skoraði 42 mörk í 48 leikjum í öllum keppnum og sýndi að hann er einhver allra besti knattspyrnumaður heims á síðari árum. Aðrir leikmenn sem ættu að gleðja augað eru: Fernando Torres (Spánn), Zlatan Ibrahimovic (Svíþjóð), Wesley Sneijder (Holland) og Frank Ribery (Frakkland). Allir þessir leikmenn áttu frábært tímabil í vetur og eru líkelgir til þess að láta ljós sitt skína á EM.
Evrópumótið er þó ekki þekkt fyrir að beygja sig undir líkindi eða fasta enda talsvert verið um mjög óvænta sigurvegara undanfarin ár. Besta dæmið er náttúrulega að Grikkir eru núverandi Evrópumeistarar eftir frækilegan sigur á mótinu í Portúgal fyrir fjórum árum síðan, þar sem þeir lögðu einmitt heimamenn tvisvar í mótinu og í seinna skiptið í úrslitaleiknum. Sigur Grikkja var þó dýru verði keyptur fyrir áhorfendur en leikir þeirra og í raun margir leikir þessa móts voru afskaplega hægir, taktískir og leiðinlegir á að horfa. Heimsmeistaramótið fyrir tveimur árum gaf þó góðan vísi um að skemmtilegri tímar væru framundan og því einskis að örvænta. Grikkir eru ekki líklegir til að endurtaka leikinn en þrátt fyrir mikla samheldni vantar ákveðna lykilpósta í liðið frá því fyrir fjórum árum. Þau lið sem gætu komið á óvart í þessu móti og náð langt eru: Heimamenn í Sviss, Rúmenía (ef liðið klórar sig upp úr “dauðariðlinum”) og frændur okkar frá Svíþjóð. Það er klárlega kominn tími til að endurtaka danska ævintýrið frá 1992 og Svíar eru með mjög gott lið sem getur á góðum degi yfirstigið þær hindranir sem finna má á þessu móti.
Að lokum verður að minnast á hitt heimalið mótsins, Austurríki. Leikir þeirra munu að öllu líkindum einkennast af mikilli varnarknattspyrnu og löngum boltum fram á völlinn, ekki ólíkt því ef að við Íslendingar værum með á mótinu. Það er bara vonandi að liðið verði þjóð sinni ekki til skammar en íbúar Austurríkis voru þess svo fullvissir að undirskriftarlisti fór af stað meðal landsmanna um að gefa annarri þjóð eftir sæti þeirra á mótinu.
Gleðilega knattspyrnuveislu!
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010