Nú í vikunni bárust fregnir af því að íslenska tónlistarhátíðin, Iceland Airwaves, yrði ef til vill ekki haldin, nema þá með smærra sniði, þetta árið sökum fjárhagserfiðleika. Þetta staðfesti Þorsteinn Stephensen, eigandi Hr. Örlygs sem sér um rekstur hátíðarinnar, í samtali við fjölmiðla. Stefnir hann á að hafa hátíðina smærri í sniðum en fyrri ár og er talað um að fækka íslenskum og erlendum hljómsveitum og jafnvel aðgangsmiðum. Þetta verður að teljast skref í vitlausa átt.
Iceland Airwaves hátíðin var fyrst haldin árið 1999. Síðan þá hefur hún vaxið með hverju árinu og hefur nú skipað sér sess meðal þekktustu tónlistarhátíða Evrópu sem verður að teljast ótrúlegt afrek miðað við landfræðilega legu og hátt verðlag á Íslandi. Hátíðin hefur þá náð til sín mörg af þekktari nöfnum nútímatónlistar. Þá hefur hátíðin síðustu ár státað af fjölda fjölbreyttra hljómsveita og hafa allir þannig getað fundið eitthvað við sitt hæfi. Verði erlendum böndum fækkað missir hátíðin því mikið aðdráttarafl.
Umfjöllun erlendra fjölmiðla um hátíðina hefur verið einkar lofsamleg. Hún hefur þótt afar vel heppnuð í gegnum tíðina og íslenskir tónlistarmenn hlotið lofsamlega dóma fyrir frammistöðu sína. Slík kynning er lítt þekktum innlendum tónlistarmönnum vitanlega ómetanleg og getur auðveldlega greitt leiðina að heimsfrægð. Sé áætlað að minnka hátíðina er líklegt að fækka verði innlendum tónlistarmönnum og grasrótarstarf íslenskar tónlistar beri því töluverða hnekki.
Ekki eru það íslenskir tónlistarmenn eingöngu sem tapa á slíkum samdrætti því hátíðinni fylgja viðskipti og túrismi ásamt frábærri landkynningu. Óhætt er að fullyrða að þessi hópur ferðamanna legði ekki leið sína hingað í dimmum októbermánuði ef þessar hátíðar nyti ekki við. Ferðamannaiðnaðurinn hlýtur því að sjá hag í því að halda þróun hátíðarinnar áfram í rétta átt.
Vandamálið er að fjármagn vantar. Hr. Örlygur segir að um samdrátt í samfélaginu sé að ræða og allt sé að hækka. Fráfarandi framkvæmdastjóri hátíðarinnar var þó fljótur að benda á að hátíðin hafi skilað hagnaði síðustu ár og rekstur Hr. Örlygs hafi fyrst og fremst verið til vandræða og aðskilja ætti rekstur hátíðarinnar og rekstur Hr. Örlygs. Hver svo sem ástæðan er fyrir fjárhagserfiðleikunum liggur fyrir að grípa þarf inn í og bjarga hátíðinni. Annað er ekki ásættanlegt í ljósi árangurs fyrri ára.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009