Í gærkvöldi lýsti Barack Obama yfir sigri í forkosningum demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Möguleikar Clinton til að hljóta útnefningu demókrataflokksins sem forsetaefni eru úr myndinni og Barack Obama verður forsetaefni flokksins. En Clinton hefur ekki játað sig sigraða.
Í gærkvöldi fóru fram síðustu forkosningarnar í Montana og S-Dakóta, þar sem Clinton hafði sigur í S-Dakóta en Obama í Montana. Eftir þær er ljóst að Obama hefur náð þeim fjölda kjörmanna sem nauðsynlegur er til að hljóta útnefninguna. Söguleg stund þar sem hann er fyrsti svertinginn til að vera í framboði til forseta í landinu.
Þó Clinton verði ekki forsetaefni að sinni á hún aðra möguleika. Möguleikann á því að tapa með reisn, viðurkenna tapið og flykkja sér og sínu fólki að baki Obama. Hún getur tekið þátt í kosningabaráttunni af hörku, hvort sem það verður sem varaforsetaefni eða ekki. Hún á vissulega möguleika á því að verða varaforsetaefni og hefur sjálf opnað fyrir þann möguleika. En jafnvel þó hún verði ekki varaforsetaefni getur hún lagt sitt að mörkum, fyrst í kosningabaráttunni og síðar sem ráðherra í ríkisstjórninni. Ef hún vill hafa áhrif og koma breytingum til leiðar þá ber henni hreinlega skylda til að demba sér í baráttuna og starfið af fullri hörku.
Fari Clinton hins vegar í fýlu, gagnrýni útdeilingu kjörmanna í Florida og Michican (sem ekki tóku þátt í forkosningunum af tæknilegum ástæðum) eða haldi áfram að tala um að hún hafi hlotið ósanngjarna meðferð í fjölmiðlum, þá verða henni allar bjargir bannaðar. Það er enginn að fara að púkka upp á fýlupoka. Sú staðreynd að Clinton játaði sig ekki sigraða í gær og óskaði ekki Obama til hamingju með sigurinn bendir til þess að hún sé í fýlu – því miður fyrir hana og því miður fyrir demókrataflokkinn.
Taki Clinton á málunum með reisn á hún möguleika á því að koma aftur inn á sjónarsviðið. Fyrst John McCain getur verið í kosningabaráttu á áttræðisaldri þá á Clinton svo sannarlega möguleika á því að koma aftur inn á sjónarsviðið sem forsetaefni, hvort sem það verður eftir 4 ár eða 8 ár. En núna er tími fyrir breytingar með Barack Obama í bílstjórasætinu.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020