Nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins um staðsetningu flugvallarins var innilega fagnað af borgarstjóra Reykjavíkur í sérstakri yfirlýsingu hans um málið. Líklega kom hún fæstum á óvart enda hefur hann hingað til ekki farið í grafgötur með skoðun sína á því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.
Auðvitað er bara hið besta mál að stjórnmálamenn hafi skoðanir og opinberi þær. En það sem er gagnrýnisvert varðandi þessa yfirlýsingu borgarstjórans er að svo virðist sem hann tali gegn hagsmunum Reykvíkinga og taki meira mark á skoðunarkönnun Fréttablaðsins en kosningu á vegum borgarinnar sem gaf aðra niðurstöðu.
En vissulega má segja að nokkuð vatn hafi runnið til sjávar síðan kosið var um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar.
Eitt af því sem hefur gerst síðan kosningarnar fóru fram er að samgönguráðuneytið og Reykjavíkurborg komu sér saman um að skipa starfshóp til skýrslugerðar um málið sem stóð að nokkuð nákvæmri úttekt á þeim helstu kostum sem fjallað hefur verið um, með eða án flugvallarins í Vatnsmýrinni.
Þó að líklega megi endalaust velta fyrir sér aðferðafræðinni sem beitt var í þessari úttekt verður ekki framhjá því litið hversu afgerandi niðurstaða skýrslunnar var. Hag borgarbúa virðist vera best borgið með því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og samkvæmt skýrsluhöfundunum yrði ávinningurinn mikill.
Í skýrslunni er fjallað um hagræðið sem hlýst í umferð höfuðborgarsvæðisins ef flugvöllurinn yrði fluttur og íbúðabyggð kæmi í staðinn (B-kostir). Þar stendur orðrétt:
,,Samkvæmt umferðarlíkaninu minnka akstursvegalengdir á höfuðborgarsvæðinu um 141 þúsund kílómetra á dag eða 44,5 milljónir kílómetra á ári við uppbyggingu í Vatnsmýrinni samkvæmt B-kostunum miðað við fullbyggða Vatnsmýri en enga byggð á Geldinganesi. Ferðatími á höfuðborgarsvæðinu styttist við uppbyggingu í Vatnsmýrinni um 3.021 klukkustund á dag, eða um 952.000 klukkustundir á ári miðað við forsendu um meðalaksturshraða.“
Með þessum sparnaði ásamt öðrum ávinningi og kostnaði sem fylgir því að flytja flugvöllinn reiknuðu þeir sem komu að skýrslunni út núvirtan þjóðhagslegan ábata. Niðurstöður þeirra gáfu til kynna að miðað við verðlag ársins 2007 yrði sá ábati varla lægri en 25 milljarðar, sem voru neðri mörk næmnigreiningar, en líklega nærri 35 milljörðum.
Þess má til gamans geta að þegar skýrslan kom út kostaði lítri af bensíni um 120 kr. í stað 162 kr. í dag. Auðvitað hefur verðlag almennt hækkað en hjá því verður ekki litið að bensín hefur líklega hækkað hlutfallslega mest og horfa því heimilin í landinu án efa eftir hverjum eknum kílómetra. Kostnaður við að aka þessa 44,5 milljón kílómetra á ári sem minnst er á í skýrslunni hefur því hækkað um 200 – 300 milljónir miðað við að hver bíll noti 12 til 18 lítra á hverja 100 km. Mesta hagræðið af flutningi vallarins fælist þó auðvitað í tímasparnaði borgarbúa.
Eins og vænta mátti komast skýrsluhöfundar að þeirri niðurstöðu að líklega væri betra fyrir þá sem standa að flugi að flugvöllurinn fengi að vera áfram og einhver aukakostnaður myndi leggjast á landsbyggðina. En ef sá kostnaður er borinn saman við ávinning borgarbúa, flugsamgöngur bornar saman við akstur í borginni og síðast en ekki síst fjöldi borgarbúa, sem myndu finna fyrir þessum breytingum á hverjum degi, við fjölda íbúa landsbyggðarinnar sem nota flug reglulega, er valið augljóst.
Hagsmunum Reykvíkinga yrði best borgið ef flugvöllurinn yrði fluttur og því eru yfirlýsingar borgarstjórans í Reykjavík mikil vonbrigði.
Framtíðarúttekt Reykjavíkurflugvallar
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021