Athyglisverður atburður átti sér stað um daginn. Æðra stjórnvald felldi úr gildi úrskurð lægra sett stjórnvalds. Til upplýsingar þá hefur það gerast áður að æðra stjórnvald komist að því að málsmeðferð lægra sett stjórnvalds hafi ekki verið málefnaleg og ekki byggð á lögmætum sjónarmiðum. Það athyglisverða er að hópur manna safnaðist saman fyrir utan byggingu hins æðra stjórnvalds og mótmælti ógildingunni með þeim orðum að nú þyrfti að hreinsa út gamaldags viðhorf.
Sjálfsagt er að hópur manna komi saman og mótmæli hverju sem er að því tilskildu að réttindi annarra séu ekki fótum troðin eða almannareglu ógnað. Mótmæli eru ein birtingarmynd tjáningarfrelsis. Þau réttindi eru ein mikilvægustu réttindi borgaranna í lýðræðislegu réttarríki. Ef mótmæla þarf úrskurði stjórnvalds þá var sú leið sem farin var sl. föstudag fyrir utan dómsmálaráðuneytið nokkuð ágæt og vakti athygli.
Af þeim sökum er óhjákvæmilegt annað en að mótmæla málflutningi mótmælendanna. Nokkurs ruglings hefur gætt í opinberri umræðu um þetta tiltekna mál og því jafnvel verið slegið föstu að dómsmálaráðuneytið, hið æðra stjórnvald í þessu máli, hafi ákveðið að leyfa einkadans á tilteknum veitingarstað í Kópavogi í trássi við gildandi lög í landinu. Dylgjur mótmælenda í þá veru og upphlaup þeirra útaf þessu máli vekja furðu og spurningar vakna á móti hvort ekki er frekar þörf á að hreinsa samfélagið af þessum nýjum viðhorfum – viðhorfum um að í lagi sé að settar séu íþyngjandi reglur og kvaðir á einstaklinga og stjórnvöld því til viðbótar hvött til að virða vettugi lögmætisreglu stjórnsýslulaga í nafni siðgæðis sumra. Viðhorfum um að í lagi sé að banna allt sem getur mögulega af einhverjum talist löstur og mannréttindum í stjórnarskrá sé vel fórnandi á því siðgæðisaltari.
Hið umrædda stjórnsýslumál snerist um það að rekstraraðila veitingarstaðarins Goldfingers var synjað af sýslumanninum í Kópavogi um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram færi nektardans í atvinnuskyni á staðnum. Sýslumaðurinn var bundinn af umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem hafði hafnað því að rekstaraðilinn fengi umrætt leyfi. Í kjölfarið kærði aðili málsins úrskurð sýslumannsins til dómsmálaráðuneytisins. Í úrskurði ráðuneytis er komist að þeirri niðurstöðu að umsögn lögreglustjórans hafi ekki byggt á staðreyndum málsins og ekki verið í málefnalegum tengslum við lagagrundvöll þess. Hin bindandi umsögn lögreglustjórans hafi þannig verið haldin verulegum efnisannmörkum og því ákvörðun sýslumannsins felld úr gildi og honum gert að afla nýrrar umsagnar. Úrskurðinn í heild sinni mál lesa hér.
Í enn styttra máli var komist að því að brotið var gegn góðum stjórnsýsluháttum í málinu og sýslumanninum gert að taka málið fyrir að nýju. Skiljanlega er slík stjórnsýsluniðurstaða mikið áfall fyrir þá hópa sem öllu vilja til kosta að hindra ákveðna atvinnustarfsemi sem þeir telja ósiðlega. Þá virðist ekkert varða um það að löggjafinn hefur tiltekið að nektardans í atvinnuskyni, skv. lögum um veitingarstaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, geti verið heimilaður á veitingarstöðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Reyndar fer það ekki milli mála að hópurinn sem stóð fyrir mótmælunum vill ekkert frekar en að sú þrönga lagaheimild verði með öllu fjarlægð úr lögunum.
Hættulegt er í umræðum í málum sem þessum að draga beina línu á milli tveggja ótengdra atriða. Talsmenn frelsisskerðinga beita slíku vopni ótt og títt og verður því miður vel ágengt. Dregin hefur verið lína á milli mannsals og vændis annars vegar og nektardans hins vegar og afleiðing er sú að nektardans er bannaður nær að fullu. Dregin hefur verið lína á milli eyðslu á peningum og spilaleiks og spilaleikurinn bannaður. Dregin er lína á milli áfengis og upplausnar í samfélaginu og aðgengi að áfengi því takmarkað verulega. Nóg virðist vera að sýna fram á að eitthvað slæmt geti hugsanlega gerist í tengslum við eitthvað allt annað og þá eru báðar athafnirnar bannaðar eða settar við því þröngar skorður burt séð frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja um að ekki eru tengsl á milli þeirra.
Með þessari línulegri aðferðarfræði við að skerða réttindi manna er ekki gerð minnast tilraun til að sættast við þá staðreynd að mennirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Hverjum og einum ber að axla ábyrgð á sínum eigin gjörðum og þannig með öllu ótækt að láta alla gjalda fyrir misgjörðir fárra. Hvað þá láta alla gjalda fyrir að einhverjum finnst einhver annar vera að gera eitthvað ósiðlegt. Talsmenn þessara nýju og nútímalegra siðgæðisviðhorfa hafa aldrei geta svarað því hvar þeir munu draga mörkin. Það er vegna þess að það eru engin mörk á því hvar hætt verður að sópa mannréttindum og umburðarlyndi út á haugana ef siðferði sumra fær að ráð för á kostnað allra hinna.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020