Í byrjum marsmánaðar birti hagfræðingurinn Joseph Stiglitz grein þar sem hann kynnti þá niðurstöðu sína að stríð Bandaríkjamanna í Írak kæmi til með að kosta meira en þrjú þúsund milljarða Bandaríkjadala. Þetta mat er langt frá því að vera óumdeilt. Þó er ljóst að kostnaður við stríðið margfaldur á við það sem upphaflegar væntingar Bandaríkjastjórnar stóðu til og þess sem kynnt var í aðdraganda stríðsins.
Það er að skiljast á Bandaríkjastórn að Írak gæti orðið fyrirmyndarríki lýðræðis og markaðsbúskapar og þannig orðið nokkurs konar leiðarljós fyrir aðrar þjóðir þar um slóðir. Þetta er mjög göfugt markmið. En það næst líklega aldrei fyrr en almenningur í Írak reynir á eigin skinni þá lífskjarabót sem felst í frjálsu og umburðarlyndu samfélagi. Eins og staðan er í dag er því miður langt frá því að þetta sé raunin. Þetta hlýtur að leiða hugann að því hvort einhver leið hefði verið til þess að eyða þessum þrjú þúsund milljörðum Bandaríkjadala með gáfulegri hætti heldur en í stríðsreksturinn.
Í lok síðari heimsstyrjaldar glímdu Bandaríkin við mikinn andbyr á hernumdum svæðum í Þýskalandi. Þýska þjóðin hafði þá vanist því að líta á Bandaríkin sem óvin enda höfðu bandamenn brennt borgir í sprengjuregni og hermenn þeirra framið ódæði á herför sinni um landið. Það sem olli straumhvörfum í samskiptum Bandaríkjamanna og Þjóðverja var hins vegar þegar Sovétmenn gerðu tilraun til þess að loka flutningaleiðum til Vestur-Berlínar. Þá gripu Bandaríkjamenn til þess ráðs að senda borgarbúum lífsnauðsynjar með því að halda uppi loftbrú í næstum heilt ár þar sem flugvélar með vistum lentu á 90 sekúndna fresti allan sólarhringinn.Þessi aðgerð gjörbreytti áliti Þjóðverja á hernámsliðinu og lagði grunninn að vinsamlegu viðhorfi þýsku þjóðarinnar til Bandaríkjanna næstu áratugi. Fólk kann betur við að fá sendan til sín mat heldur en sprengjur.
Ef það kostar um hundrað þúsund dali að frelsa hvern Íraka undan Saddam Hussein, eins og útreikningar Stiglitz benda til, má halda að hægt væri að bjóða hverjum þeirra upp á verulega bætt lífskjör ef þeim peningum er rétt varið. Ef lífið býður upp á marga spennandi möguleika er ólíklegt að margir vilji glutra því niður í þágu óljósra hugaróra öfgaprédikara. Unglingar sem hafa kost á því að borða óhollustu, fara í bíó, hlusta á tónlist og stunda skemmtanalíf gætu leiðst út í veggjakrot og lent í slagsmálum en eru ólíklegri til þess að vilja fórna öllu lífi sínu í þágu öfgafulls málstaðar.
Yfirborðskennd lífsgæði eru ekki yfirborðskennd nema fyrir þá sem skortir ekkert. Þess vegna var skortur á vörum fólki miklu meira til ama heldur en skortur á málfrelsi í kommúnistaríkjum Evrópu. Hér á Deiglunni lýsti Pawel Bartoszek þessu í pistli árið 2002 þar sem sagði m.a.:
„Það sem hinn dæmigerða Pólverja dreymdi um á tímum kommúnismans var að klæðast gallabuxum, drekka kók, aka um á vestrænum bíl, eiga gervihnattadisk og geta keypt Lego-kubba handa börnunum. Það er fyrst og fremst þetta sem hinu miðstýrða markaðshagkerfi láðist að uppfylla. Bann við umfjöllum um einstaka þætti þjóðlífsins er kannski íþyngjandi fyrir blaðamenn og sögukennara en snertir ekki svo mikið hinn venjulega verkamann.“
Hið sama gæti svo hæglega gilt um Mið-Austurlönd nú. Með því að stuðla að því að sem flestir í þessum heimshluta njóti góðs af þeim miklu gæðum sem frjálst markaðshagkerfi býður upp á verður stöðugt erfiðara fyrir valdhafa að verja gagnvart almenningi önnur stjórnkerfi sem ekki tryggja sömu þægindi og tækifæri. Það hefði mátt kaupa margar kókdósir, gallabuxur, gervihnattadiska og legó kubba fyrir þrjú þúsund milljarða Bandaríkjadala. Kannski er kominn tími til að reyna það?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021