Það var mikil gleði í stofum landsmanna um allt land á fimmtudaginn þegar Ísland náði þeim sögulega árangri í Eurovision að komast áfram í úrslit söngvakeppninnar en þar höfum við ekki verið síðan árið 2004.
Það verður ekkert af Eurobandinu skafið að þau stóðu sig með stakri prýði á fimmtudaginn. Ég var ekki aðdáandi númer eitt þegar þetta lag var valið til þátttöku á Íslandi, en hef svo sannarlega þurft að éta það allt ofaní mig aftur – algjörlega óháð því hver úrslitin verða.
Eftirvæntingin fyrir keppninni er mikil og ekki seinna að vænna að setja kampavínið í kæli en strax, samhliða því að velta fyrir okkur líklegri niðurstöðu í úrslitunum.
Eurovision er líkt og aðrar keppnir milli landa heillandi þar sem saman koma í mesta bróðerni, fyrir utan flokkadrætti, þjóðfélagsdeilur og átök, flestar þjóðir álfunnar og jafnvel víðar. Hversu oft fylgjumst við í eftirvæntingu með einhverju sem kemur frá Albaníu eða Armenínu? En þetta eru einmitt tvö þeirra landa sem ég spái góðum árangri í úrslitunum.
Unga stúlkan frá Albaníu minnir óneitanlega á ungu albönsku stúlkuna sem söng sig inn í hjörtu Evrópubúa 2004 með laginu Image of You og náði þar fjórða sæti. Armenska stúlkan með lagið Quele Quele er með skemmtilega framkomu og hresst lag sem á eftir að ná langt.
Lettnesku sjóræningjarnir, sem veðbankar og aðrir spekúlantar hafa takmarkaða trú á, munu komast inn á topp 10 og fá áfram mitt atkvæði.
Ani Lorak frá Úkraníu verður einn léttklæddi tannstöngullinn sem mun komast langt. Óbeisluð framkoma hennar á sviðinu og hressileiki skýtur hinni sænsku Charlotte ref fyrir rass.
Frakkar eru miður sín yfir því að framlag þeirra skuli vera á ensku, en það kemur ekki að sök hjá Sébastien Tellier. Menn deilir á um hvort hér sé grín á ferð eða ekki, svona út frá myndbandinu séð – en þetta er flott lag og ef fólki finnst það eitthvað betra, þá er það langt frá því að vera „eurovisionlegt“.
Portúgal fékk einróma lof í salnum þegar þeir voru síðastir inn í úrslitin í undankeppninni á fimmtudag. Eftirfarandi lýsing óbreytts áhorfanda lýsir þessu kannski bara best: „ég bara gleymdi hvað þau komu illa út á sviðinu um leið og þau byrjuðu að syngja“. Þetta lag er svona týpiskt „gæsahúðarlag“.
Tyrkland mun svo komast inn á topp 10, bara af því að það er Tyrkland og þar sem enn vantar Norðurlandaþjóð inn á topp 10 þá spái ég Norðmönnum þangað (get bara engan veginn fengið mig til að segja Svíþjóð – þó lagið sé raunverulega með þeim betri í keppninni og eins „eurovisionlegt“ og þau gerast). Aðrir sem eru líklegir til að skipa sér á topp 10 eru Króatar og Spánn.
En svo er bara að vona að Eurobandið tvíeflist við 100 milljón áhorfendur og komi aftur á óvart og ekkert af þessu reynist rétt. Áfram Ísland.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020