Umræður um einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, menntamálum og fleiri málaflokkum hafa verið töluvert upp á pallborðinu undanfarin ár og hafa núverandi stjórnarflokkar iðulega verið mjög jákvæðir í garð einkarekstursins. Enda hafa dæmin sýnt að einkareknir háskólar sem og margar einkareknar heilbrigðisstofnanir hafa gert afar góða hluti.
Nú hefur það einnig verið stefna ríkisstjórnarinnar, bæði núverandi og þeim sem á undan hafa komið, að einkaaðilar séu best til þess fallnir að stýra fyrirtækjum. Dæmin hafa ótvírætt sýnt að þetta er rétt stefna.
Út frá þessum forsendum skulum við gefa okkur að stjórnvöldum þyki einkaaðilar, eða í það minnsta einkarekstrarformið, í fyrsta lagi betur til þess fallnir að mennta- og kenna komandi kynslóðum og í öðru lagi betra til þess fallnir að stýra fyrirtækjum í atvinnulífinu.
Það virðist því vera skemmtilega mikil mótsögn í því, að svo virðist sem stjórnvöld telji að þau séu best til þess fallin að kenna fólki hvernig á að byggja upp og stýra fyrirtækjum.
Stjórnvöld eru semsagt hvorki best í því að kenna né best í því að reka fyrirtæki, en hinsvegar best í því að kenna einkaaðilum að reka fyrirtæki. Magnað.
Stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja hefur undanfarin ár og áratugi verið nánast alfarið rekið af hinu opinbera. Miklum fjármunum hefur verið varið til nokkurra opinberra stofnana í þessum geira og þrátt fyrir að það hafi vissulega haft fjölmargar jákvæðar afleiðingar þá sýnist sitt hverjum um árangurinn. Ekki hvað síst ef skoðaður er árangur samanborið við aukin fjárútlát. Bjarni Ármannsson, fjárfestir, benti til að mynda á athygliverðan punkt í þessu samhengi í viðtali HÉR á Deiglunni.
Þvert á það sem hefði verið í anda aukins einkareksturs stjórnvalda á sem flestum sviðum, hefur það leynt og ljóst verið stefnan að auka og efla ríkisstarfsemi í þessum geira. Í fyrra voru t.d. Iðntæknistofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sameinaðar undir hatti Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Nú hefði mátt halda að tilgangurinn væri að nýta samlegðaráhrif sameiningarinnar til þess að nýta fjármuni enn betur. En þvert á móti, hefur í kjölfarið verið sett enn meira opinbert fjármagn í hina nýju stofnun en fyrirrennarar hennar fengu samanlagt áður. Og menn virðast hvergi hættir ef miðað er við erindi sem flutt var á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar nú nýlega og bara yfirskriftina “Nýsköpunarmiðstöð Íslands færir út kvíarnar”.
Að mati undirritaðs gætu stjórnvöld, og þar með talið Nýsköpunarmiðstöðin, náð mun betri árangri með því að auka enn samvinnu við aðra aðila í stuðningsumhverfinu. Í stað þess að reyna að gera allt innandyra í opinberum stofnunum væri það enn sterkara fyrir íslenskt atvinnulíf að úthýsa stuðningsverkefnum og ýmsum rekstri til einkaaðila, háskóla og annarra sem betur eru til þess fallnir að inna starfsemina af hendi á hverju sviði. Þannig væri mögulega hægt að slá tvær flugur í einu höggi, spara pening og auka árangurinn.
Undirritaður hefur verið þess aðnjótandi að vinna í stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja í hálft annað ár og þrátt fyrir ýmsa gagnrýniverða punkta, sbr. t.d. hér að ofan, er það jákvæða við þetta allt saman að það er gríðarlega gefandi að vinna í þessu umhverfi og svo virðist vera sem mikil vakning sé að verða í þjóðfélaginu um þessi mál. Mikill metnaður er innan Nýsköpunarmiðstöðvarinnar og starfsfólksins þar (enda raunar bara þeirra verkefni að fylgja stefnu stjórnvalda), tvö einkarekin frumkvöðlasetur, Innovit og Klak, hafa vaxið hratt undanfarið ár, stofnað hefur verið formlegt net viðskiptaengla, sett hefur verið á fót keppni í gerð viðskiptaáætlana og svo mætti áfram telja. Þrátt fyrir að stjórnvöld þurfi því að taka á sinni stefnu í þessum málaflokki er ljóst að það eru mjög spennandi tímar framundan fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010