„Til þess að bæta virkni peningamálastefnunnar mun ríkisstjórnin meðal annars þegar undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs,“ segir í yfirlýsingu forsætisráðherra. Margoft hefur verið mælt með breytingum á starfsemi Íbúðalánasjóðs á Deiglunni.
Þrátt fyrir að augljóst sé að Íbúðalánasjóður hafi unnið gegn vaxtastefnu Seðlabankans með því að halda húsnæðisvöxtum of lágum of lengi, eru hópur fólks sem vilja sjá starfsemi hans óbreytta. Sá hópur segir að bankalán séu of dýr og þess vegna sé nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður veiti einhvers konar viðnám gegn markaðsvöxtum á húsnæðislánum.
Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans eru gerðar til að hægja hækkun verðlags, meðal annars með því að letja fólk og fyrirtæki til fjárfestinga. Undir þá skilgreiningu falla meðal annars húsnæðiskaup. Vextir húsnæðislána hjá bönkunum eru hærri en hjá Íbúðalánasjóði vegna þess að þeirra fjármögnun tekur mið af skilyrðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og stýrivöxtum Seðlabankans. Með öðrum orðum, þeir taka mið af peningastefnu stjórnvalda.
Ekki er hægt að segja það sama um Íbúðalánasjóð. Á meðan stýrivextir hafa hækkað til að ofangreind markmið, heyrast í sífellu nýjar fregnir um að nú hafi Íbúðalánasjóður lækkað vexti eða aukið útlán. Það liggur í augum uppi að hér er afl að verki sem gerir peningastefnunni lítinn greiða. Enda hafa alþjóðlegar stofnanir og greiningarfyrirtæki á borð við OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Standard & Poor’s margoft bent á skaðsemi sjóðsins fyrir peningastefnuna.
Þrátt fyrir að óeðlilegt sé að sjóður með ríkisábyrgð keppi við bankana á húsnæðislánamarkaði, er sjálfsagt að til sé sjóður sem hefur félagslegt hlutverk. Þannig væri hægt að veita þeim sem lægstar tekjur hafa lán, og mögulega þeim sem búa á landsbyggðinni. En opinber sjóður sem veitir öllum landsmönnum húsnæðislán er óþarfur
Forsvarsmenn samtaka fasteignasala, stjórnmálamenn og aðrir hagmunaaðilar hafa bent á að það sé beinlínis mannréttindamál að allir hér á landi geti fengið húsnæðislán. Þjóðráð væri fljúga því fólki til Tíbet eða Darfúr og taka síðan umræðu um mannréttindamál.
En kannski er ágætt að hugsa til þess að helstu vandamál okkar Íslendinga virðast felast í dýrum húsnæðislánum til skamms eða meðallangs tíma. Erfitt er að sjá hvaða mannréttindi eru brotin þar.
- Grætt á gjaldeyrishöftum - 18. september 2009
- Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn - 27. maí 2009
- Hverjum er um að kenna? - 25. apríl 2009