Í kínverskri heimspeki er talan 8 mikil happatala og völdu kínverjar þann 8/8/8 fyrir opnunarathöfn Ólympíuleikanna. Jarðskjálftinn sem skók Sichuan hérað þann 12. maí er þó ekki vísbending um mikla gæfu, og virðast afleiðingar hans hafa verið hörmulegar. Enn standa yfir björgunaraðgerðir, og nú þegar hefur verið staðfest að 20.000 manns hafi látist af völdum jarðskjálftans. Yfirvöld hafa þó varað við því að allt að 50.000 gætu fundist látnir áður en yfir lýkur.
Því miður er þetta ekki eina ógæfan sem hefur dunið á Kínverjum undanfarið, þótt þetta sé sú langstærsta. Í janúar geisuðu í Kína miklir snjóstormar og kuldar sem talið er að hafi kostað yfir 100 manns lífið. Kuldarnir voru þeir mestu í áratugi, og höfðu áhrif út um allt landið.
Viku áður en jarðskjálftinn reið yfir varð svo versta lestarslys Kína á undanförnum árum, þegar tvær lestir rákust saman og hátt í 100 manns létu lífið. Slysið varð á spori sem verið var að gera upp í tilefni Ólympíuleikana, og svo virðist sem önnur lestin hafi ekki tekið tillit til tímabundinna hraðatakmarkanna sem voru í gildi vegna framkvæmdanna.
Fyrir utan þessi slys og hamfarir hafa óeirðirnar í Tíbet kostað svipaðan fjölda mannslífa, bæði Tíbetbúa og Kínverja af Han-ættbálknum (sem er meginættbálkur Kínverja). Þótt dregið hafi úr átökunum að undanförnu er enn mikil spenna í Tíbet og sáttaumleitanir standa enn á milli Dalai Lama og kínverskra stjórnvalda.
Mótmæli á vesturlöndum í tilefni af kyndilför Ólympíueldsins, og tilraunir til að slökkva hann á leið um heiminn, hafa svo verið enn ein báran í þessum öldugangi, þótt hún sé vissulega smávægileg í samanburði við önnur áföll sem yfir hafa dunið.
Það virðist því ljóst að talan 8 hefur ekki verið fyrirboði góðrar gæfu að undanförnu, og talnaspekingar hafa jafnvel bent á að stærsti snjóstormurinn varð þann 25/1, (þversumma 2+5+1=8), mótmælin í Tíbet hófust 14/3 (þversumma 1+4+3=8), og jarðskjálftinn reið yfir þann 12/5 (þversumma 1+2+5=8).
Hvað sem slíkum ógæfuútreikningum líður er lítið hægt annað en að vona að ekki sé nú von á frekari ógæfu, og að afgangurinn af árinu verði Kínverjum auðveldari en sá hluti sem liðinn er.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020