Uppruna hugmyndarinnar um aukna samvinnu Evrópuríkja í kjölfar síðari heimsstyrjaldar má rekja til þess að talið var að aukin viðskipti myndu draga mjög úr líkum á stríðsátökum milli þeirra þjóða sem tvisvar á fyrri hluta 20. aldar steyptu öllum heiminum út í stríðshörmungar. Með því að tryggja að sem flestir hefðu hagsmuni af því að friður ríkti yrði stjórnvöldum gert erfiðara um vik að sannfæra þjóðir sínar um að stríð væru réttlætanleg. Þegar menn kynnast öðrum þjóðum og öðrum menningarheimum í gegnum viðskipti verður erfiðara en áður að ljúga því að þeim að fólk í öðrum löndum sé öðruvísi og að hafa þurfi sérstakan vara á gagnvart þeim.
Frjáls viðskipti og haftalaus samkeppni um hylli neytenda eru jafnháð uppteiknuðum landamærum eins og skýin og stjörnurnar á himninum eru háð yfirráðasvæðum tiltekinna þjóðríkja. Ef vörur og þjónusta bjóðast á hagstæðum kjörum ráða eigin hagsmunir því að ný tengsl myndast milli manna og geta stjórnmálamenn lítið aðhafst til þess að sporna við slíku – nema með því að banna með valdi viðskipti eða gera þau óhóflega dýr með inngripum sínum. Þegar fólk nýtur ávaxta frjálsrar samkeppni verður stöðugt erfiðara fyrir stjórnmálamenn og valdhafa að taka þann ávinning af þeim aftur. Þess vegna eru frjáls viðskipti einhver besta trygging fyrir friði sem völ er á – en jafnframt stuðla viðskipti ólíks fólks að trausti og stríða gegn tortryggni og fordómum.
Evrópusamvinnan hefur sannarlega gert mikið til þess að tryggja frið í Evrópu á síðustu sextíu árum. Á sama tíma hafa alþjóðlegar stofnanir og ýmis konar alþjóðasamstarf reyndar almennt stuðlað að því að friðvænlegt hefur verið víða í heiminum. Nú um stundir virðist því miður ákveðið bakslag hafa færst í fríverslunarumræðu í heiminum. Að hluta til má rekja það til þess að í sumum tilvikum hefur alþjóðavæðing verið notuð til þess að mylja undir óprúttna aðila á kostnað fólks í fátækum löndum og sums staðar hefur rótgróin spilling orðið til þess að almenningur hefur of lítinn ábata haft af þeim verðmætum sem skapast hafa. En aðalatriðið er samt sem áður það að allir hagnast á frjálsum viðskiptum ef þess er gætt að lög og mannréttindi séu virt. Og reyndar geta viðskipti með vörur og þjónustu ýtt undir og flýtt umbótum á þessum sviðum.
Evrópusambandið hefur verið mikið leiðarljós að mörgu leyti í þessum efnum. Ríki Austur-Evrópu sem bjuggu við kommúnisma og þá hefð spillingar sem hann ól af sér, hafa sótt fram með miklum hraða meðal annars vegna þess að almenningur og stjórnvöld sáu í hyllingum þann ávinning sem fælist í frjálsu aðgengi að mörkuðum Vestur Evrópu.
En einn er sá hópur sem í senn er líklegur til þess að halda áfram að hafa vestræna menningu á hornum sér og nýtur í engu þeirra miklu ávaxta sem aukin fríverslun í heiminum hefur tryggt svo mörgum. Þetta eru lönd múslíma í Mið-Austurlöndum. Af þessum sökum er ákaflega brýnt að hatursáróðri öfgamanna meðal múslíma og meðal kristinna sé mætt með sönnunum þess að fólkið sjálft er ekki svo ólíkt þegar nánar er að gætt, heldur séu það ytri aðstæður, áróður, fáfræði og höft samfélaganna sem neyði það út í tortryggni, ótta og hatur á því óþekkta.
Af þessum ástæðum væri heppilegt að stærsta lýðræðisþjóð múslima, Tyrkland, fengi aðgang að þeim mikla ávinningi sem felst í Evrópusamvinnunni. Nú er orðið ljóst að langur tími mun líða þar til stærstu og valdamestu ríkin í Evrópusambandinu hleypi Tyrklandi þar inn – og ræður þar líklega mestu ótti við það afl sem svo stórt aðildarríki fengi innan stofnana sambandsins auk þess hve miklir fjármunir myndu flæða úr sjóðum Evrópusambandsins til þess að styrkja Tyrki til efnahagslegrar þróunar.
Ein augljós lausn á þessu er sú að Tyrkland fái notið góðs af fjórfrelsinu sem felst í EES samningnum með því að ganga í EFTA. Þetta myndi færa tyrknesku þjóðinni mjög aukin tækifæri og stuðla þar með að auknum skilningi og vináttu milli íbúa Tyrklands og Evrópu – og draga úr trúarbragðatortryggni. Sé upprunalega Evrópuhugsjónin höfð að leiðarljósi má nefnilega færa rök fyrir því að EES samstarfið gangi jafnvel nær því að uppfylla þá hugsjón heldur en full aðild að ESB. Sé það enn leiðarljós Evrópusamvinnunnar að tryggja frið og samvinnu með því að binda hagsmuni þjóðanna saman með viðskiptum þá liggur beinast við að rétta slíka vinarhönd til tyrknesku þjóðarinnar með því að bjóða Tyrklandi aðild að EFTA.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021