Seðlabankar víða um heim hafa á síðustu mánuðum rétt fjármálastofnunum hjálparhönd í þeim óróa sem nú skekur fjármálamarkaði. Slíkar aðgerðir hafa mætt ákveðinni gagnrýni ýmissa hópa – þá gjarnan spurt hvort tækt sé að bankar fái að hagnast um stjarnfræðilegar upphæðir og halda þeim ábata fyrir sjálfa sig, en leiti síðan á náðir hins opinbera þegar hallar undan fæti?
Það skal áréttað að upphaflegt hlutverk Seðlabanka – sem er raunar enn í fulli gildi, er að vera banki bankanna. Það er að segja, að vera lánveitandi til þrautavara. Þegar fjármálastofnunum eru allar dyr lokaðar að fjármagni er það einmitt hlutverk seðlabanka að koma þeim til aðstoðar. Það er nefnilega ekkert smámál, sérstaklega fyrir lítið hagkerfi eins og Ísland, ef stórar fjármálastofnir hafa ekki aðgang að fé til að halda áfram starfsemi sinni. Þó hefur sem betur fer ekki komið til þess ennþá að Seðlabanki Íslands hafi þurft að veita íslenskum banka neyðarlán í núverandi ástandi.
En það færi svo að íslenskur banki þyrfti að fá neyðarlán, væri þá hægt að tala um einkavæddan hagnað og þjóðnýtt tap? Hafa bankarnir ekkert fært til þjóðfélagsins?
Sé einungis litið til skattgreiðslna stóru viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans kemur í ljós að um er að ræða gríðarlegar upphæðir. Á árunum 2004-2007 greiddu þessir þrír bankar samtals tæplega 80 milljarða króna í skatt. Fyrir þá peninga má ýmislegt gera. Athugast skal að hér er einungis litið til hinna þriggja stærstu, nóg er um smærri og meðalstór fjármálafyrirtæki hérlendis.
Þá eru ótaldar skattgreiðslur af arðgreiðslum hluthafa, sem eru einnig talsverðar fjárhæðir. Einnig má ekki gleyma því að starfsmenn bankanna greiða skatta af sínum launum. Talsvert launaskrið hefur verið hjá þeim er starfa í fjármálageiranum á undanförnum árum, við litla hrifiningu ýmissa mismálsmetandi manna. Þó er engum vafa undirorpið að þessir starfsmenn hafa greitt miklar fjárhæðir í tekjuskatt. Og þetta er einungis hinir augljósu þættir hliðaráhrifanna.
Þrátt fyrir að bankar þurfi nú hugsanlega að skera niður í starfsliði sínu og starfa varfærnislega vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum er alveg ljóst að ávinningur þjóðarbúsins af uppgangi bankanna hefur verið mikill, í það minnsta sé litið til skattgreiðslna bankanna sjálfra og þeirra sem hafa beina hagsmuni af góðu gengi þeirra.
Þeir sem segja að bankarnir eigi sjálfir að koma sér úr þeim meintu vandræðum sem þeir komu sér sjálfir í ættu því að endurskoða afstöðu sína. Atvinnu- og verðmætasköpunin sem bankarnir hafa stuðlað að á síðustu árum er íslenska þjóðarbúinu mikilvæg, sama hverju öðru líður.
- Grætt á gjaldeyrishöftum - 18. september 2009
- Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn - 27. maí 2009
- Hverjum er um að kenna? - 25. apríl 2009