12/12

Eftir 10 daga rennur upp fyrsti dagurinn í nokkuð langan tíma sem er lengri en dagurinn á undan. Þótt daginn eigi enn eftir stytta og mesta svartnættið sé ennþá fyrir höndum þá er viðsnúningurinn, viðspyrna tilverunnar, ekki langt undan.

Þótt sú tilfinning sé pistlahöfundi framandi þá er aðdragandi jólanna mörgum mikið gleðiefni. Það er með jólin hjá sumum eins og hjá öðrum með margt, að tilhlökkunin er sjálfur hápunkturinn. Og þegar á móti blæs veitir jólaundirbúningurinn kærkomið skjól. Það er betra að hafa áhyggjur af því hvort tréð þorni upp, hvort serían fjúki af þakskegginu, hvort möndludroparnir klárist í Melabúðinni, hvort fullkomin gagnkvæmni ríki í jólakortasendingum, heldur en mörgu öðru sem plagar okkur alla jafnan.

Jólin koma, segir í kvæðinu, og mættu margir taka það til sín. Jólin koma, hvað sem öðru líður. Það má alveg halda því fram með gildum rökum að viðbrögð stjórnvalda við kóvidfaraldrinum hafi valdið búsifjum umfram tilefni. Það er hins vegar fullkominn óþarfi að stressa sig yfir því að viðbrögð stjórnvalda við farsóttinni sé eða muni eyðileggja jólahátíðina.

Það mætti eiginlega frekar líta þannig á að þetta nýja norm færi okkur jólin aftur, eins og þau áttu alltaf að vera.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.