Fyrri leikur fyrri viðureignar undanúrslita meistaradeildar Evrópu fóru fram í gær líkt og mörgum er kunnugt um. Allt stefndi í enn einn heppnisigurinn hjá Liverpool á Chelsea í undanúrslitum keppninnar. Frændi vor, Jón Árni Riise, ákvað þó að taka í taumana og skora stórbrotið sjálfsmark fimm mínútum eftir venjulegan leiktíma.
Eftir leikinn í gær eru fjórir leikir eftir á þessari leiktíð í meistaradeilinni. Síðari viðureign Liverpool og Chelsea mun vitaskuld fara fram að viku liðinni, en viðureignin sem hinn hlutlausi knattspyrnuáhugamaður lítur hýru auga er vissulega þegar Englandsmeistarar Manchester United mæta Evrópumeisturunum 2006 – Barcelona.
Til að afgreiða leiðinlegri viðureignina í undanúrslitunum má reikna með að Chelsea fari þar áfram. Síðari leikurinn fer fram á Stamford Bridge, en liðið hefur ekki tapað þar í afskaplega langan tíma. Þó ætlar sá er þetta ritar að gerast djarfur og spá æsilegum leik á Brúnni, en viðureignir liðanna hafa hingað til reynst afspyrnuleiðinlegar – sannkölluð andleg staðdeyfing fyrir áhorfandann. Leikar munu að öllum líkindum standa 1-1 að loknum venjulegum leiktíma með mörkum frá Xabi Alonso og Didier Drogba, og framlengingar og mun þurfa við. Chelsea klárar það, þó ólíklegt megi teljast að Jón Árni frændi okkar skori annað sjálfsmark. Véfréttin sér þó ekki framlengingarmarkaskorarann í kristalskúlunni sinni.
Í kvöld munu síðan tvær helstu kanónur knattspyrnuheimsins leiða saman hesta sína – Barca og United. Fyrri leikurinn fer fram á stórbrotnum heimavelli Barca, Camp Nou. Fjölmiðlar og knattspyrnuaðdáendur virðast meira og minna á því máli að United sé sigurstranglegri aðilinn í þessari viðureign. Djásn United, Christiano Ronaldo, hefur sýnt magnaðan leik á þessi leiktíð og óhætt að kalla hann besta leikmann heims um þessar mundir. Þó má ekki gleyma því að Ronaldo er einn leikmanna í knattspyrnuliði sem skipar 11 menn. Varnarleikur United hefur verið raunverulegur lykill að velgengninni á þessari leiktíð. Ef að United er eins manns lið eins og margir halda fram, hlýtur Ronaldo að vera einn besti varnarmaður heims. Barca hefur átt nokkuð slappa leiktíð og gera ýmsir að því skóna að þjálfari liðsins, Frank Riikjard, verði látinn fara eftir leiktíðina. Ronaldinho sem var eitt sinn sagður besti leikmaður heims og meiddur og orðinn feitur í þokkabót, og spilar því ekki með. Barca hefur þó að skipa mögnuðum leikmönnum sem geta unnið hvaða lið sem er 5-0 á góðum degi.
Að þessu sögðu er Barca spáð sigri í fyrri leiknum, 2-1. United munu, eins og oft áður í meistaradeildinni, ekki ná sér á flug í útileiknum og úrslitin verða sanngjörn. Allt of langt er liðið síðan Serbinn frækni í miðverðinum, Nemanja Vidic, hefur skorað og mun hann minnka muninn um miðjan seinni hálfleik í kjölfar þess að Barca setur tvö mörk sitthvoru megin við hálfleik.
Síðari leikurinn á Old Trafford verður síðan „comeback“ a la Juventus 1999. Þá var United 2-0 eftir aðeins 11 mínútur í síðari undanúrslitaleiknum gegn Juventus. Leikmenn United dóu ekki ráðalausir og kláruðu leikinn 3-2 með þremur mörkum í síðari hálfleik. Viðlíka viðsnúningur mun eiga sér stað í næstu viku og United sigra 3-1. Þess má geta að í kjölfar frækins sigurs á Juventus í undanúrslitum sigruðu United keppnina í eftirminnilegum leik gegn Bayern München.
Það er þá ljóst að United og Chelsea munu mætast í úrslitaleik meistaradeildarinnar í ár. Sá leikur verður líklegast leiðinlegur og mun enda 1-0. Með marki frá fegurðarprinsinum frá Liverpool, Wayne Rooney.
Athugið að þessi spá er einungis til gamans gerð og lítil sem engin ábyrgð tekin á henni. Pistlahöfundur tekur enga ábyrgð vegna fjárhagslegs tjóns sem kann að verða vegna tapaðra veðmála byggðra á spánni.
- Grætt á gjaldeyrishöftum - 18. september 2009
- Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn - 27. maí 2009
- Hverjum er um að kenna? - 25. apríl 2009