Skuldafíkn er illvígur sjúkdómur, landlægur hér á landi, og líklega arfleið þess tíma er það þótti bæði upphefð og forréttindi að fá fyrirgreiðslu hjá bankanum. Íslendingar eru fíklar í lánsfé og eins og gildir um aðra fíkla, þá er verð fíkniefnanna engin fyrirstaða þegar þörfin kallar.
Til að stemma stigu við neyslunni hafa yfirvöld við Arnarhól reynt að gera skuldsetningu sífellt minna aðlaðandi með stórfelldum vaxtahækkunum. Þessar aðgerðir hafa litlu skilað og margt hefur bent til þess að fíkillinn væri svo að segja ónæmur fyrir þessari hefðbundnu lækningu á sjúkdómnum.
Á síðustu mánuðum hefur sjúklingurinn hins vegar svarað meðferðinni betur og neyslan virðist vera á undanhaldi. Við þessar aðstæður er líðan sjúklingsins ekki góð og fráhvarfið bæði ofsafengið og sársaukafullt. Læknirinn vill halda meðferðinni streitu og telur að hún muni á endanum skila tilætluðum árangri.
Læknirinn er tiltölulega nýútskrifaður og glímir við vanda sem felst í skorti á trúverðugleika. Aðstandendur sjúklingsins eru ekki sannfærðir um að hann haldi rétt á spilunum í meðferðinni. Það hjálpar lækninum heldur ekki að einn af starfsmönnum spítalans, lyfjafræðingur, finnur mikið til með sjúklingnum og laumast til að gefa honum fíkniefni í þeim tilgangi að lina þrautirnar sem fylgja fráhvarfinu.
Þótt lækninum sé fullkunnugt um að lyfjafræðingurinn spilli fyrir meðferðinni getur hann lítið aðhafst, þar sem lyfjafræðingurinn á vini í stjórn spítalans og starfar hann í skjóli þeirra. Þessum stjórnarmönnum virðist meira umhugað um að sjúklingurinn sé ekki þjáður en að honum batni. Öllum er hins vegar ljóst að þessi tvíþætta og gagnverkandi meðferð mun einungis draga fráhvarf sjúklingsins á langinn og seinka batanum.
Á þessum vanda er aðeins ein lausn og nú er orðið tímabært að stjórn spítalans taki í taumana. Það verður aðeins gert með því að færa lyfjafræðinginn til í starfi og loka fyrir aðgang hans að lyfjaskáp spítalans. Vilji menn halda honum í starfi þá er laus staða á líknardeildinni.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021