Þegar rótgrónir seðlabankar boða til blaðamannafundar hefst hárfín glíma, þar sem reynt er að lesa í orð bankastjóranna um peningamálastefnu til lengri og skemmri tíma. Markaðir dansa í takt, og væntingar um vaxtaákvarðanir eru innbyggðar í verð hluta- og skuldabréfa. Því hefur jafnvel verið haldið fram að ef bankastjórar eru sleipir í þessari glímu hafi vaxtaákvarðanir þeirra aldrei nein áhrif: Markaðir spá rétt fyrir um vaxtaákvörðunina og vaxtaákvörðunin fellur að væntingum markaðarins eins og flís við rass.
Hinn almenni borgari fylgist svo með glímunni og túlkun sérfræðinga, og tekur tilkynningum seðlabankastjóranna ekki bara sem innleggi í vextina á kortaskuldina eða bankainnistæðuna í dag (þótt það skipti auðvitað máli), heldur sem almennri vísbendingu um hvert stefni í efnahagsmálum og hversu mikið sé skynsamlegt að spara eða eyða á næstunni. Slík peningamálastefna byggir á að spila á styrk og væntingar andstæðingsins, og minnir um margt á austurlenskar bardagalistir, þar sem aðaláherslan er ekki lögð á að koma höggi á andstæðinginn, heldur að sýna fram á að þú getir gert það.
En slíkar leikaðferðir byggja auðvitað á því að allir aðilar séu sammála um leikreglurnar, og spili sama leikinn. Eitt af því fyrsta sem júdó-nemendur læra er að falla rétt. En þegar Seðlabankinn reyndi að beita axlarkasti á íslenska neytendur með því að hækka vexti þá sveifluðu þeir sér ekki með til að fallið yrði sem sársaukaminnst. Þeir bitu hann í eyrað og tóku erlend lán.
Erlenda lánahrinan er auðvitað að hluta til vandamál sem skapast af smæð hagkerfisins, þar sem seðlabankinn hefur ekki möguleika á að hafa bein áhrif á vexti erlendra lána. En eins og bent hefur verið á áður hér á Deiglunni voru erlend lán aldrei jafnódýr og þau virtust, og margir vöruðu við þeim. Erlendu lánin voru ekki bara einkenni lítils hagkerfis, heldur eitt af einkennum þeirra leikreglna sem gilda þegar ungir Seðlabankar án orðspors eiga í hlut. Slík peningamálastjórn minnir meira á hnefaleika en júdó.
Þegar íslenski seðlabankinn sýndi (hugsanlega of seint) að hann væri tilbúinn að hækka vexti, voru íslendingar seinir til að taka þeim skilaboðunum. Seðlabankinn átti því ekki um margt annað að ræða en að þyngja höggin. Nú lítur út fyrir að með undanförnum hækkunum stýrivaxta, nú seinast upp í 15,5% – hærra en í nokkru öðru þróuðu hagkerfi – hafi seðlabankinn kýlt Íslendinga nógu fast í magann til að þeir byrji að spara. Seðlabankinn virðist sjálfur hafa trú á því, miðað við nýútkomna þjóðhagsspá.
En Íslendinga langar ekki að spara. Því hafa þær hugmyndir öðlast sífellt meira fylgi að sækja skuli innblástur í ameríska fjölbragðaglímu, og skipta inn á í miðjum slag. Sumir virðast haldnir þeim ranghugmyndum að hæfir hagfræðingar sem fengju í hendurnar sömu tól og sömu verðbólgumarkmið myndu kúvenda vaxtastefnu seðlabankans, en slíkt verður að teljast afskaplega ólíklegt. Eina leiðin til að ná fram slíkri breytingu er að afnema verðbólgumarkmiðið, sem myndi reynast afar dýrkeypt.
Reyndar kann að vera að reyndir og virtir hagfræðingar með seðlabankastjórahatt á höfðinu væru í betri aðstöðu til að skipuleggja (og semja um við erlendar stofnanir) aðgerðir til að bregðast við lausafjárvanda íslenskra banka. Eins og fram hefur komið hér á Deiglunni eru slíkar aðgerðir mikilvægar. Aftur á móti væri mun heppilegra að bæta slíkri kempu í leikinn með friðsælli hætti, til dæmis með því að fjölga bankastjórum, eða ef einhver bankastjóranna ákvæði af sjálfsdáðum að draga sig í helgan stein. Þegar um hægir væri svo skynsamlegt að taka aftur upp þráðinn varðandi stjórn seðlabankans og faglega ráðningu seðlabankastjóra. Mun betur færi á því að slík breyting yrði tekin með farsælt framtíðarfyrirkomulag að markmiði heldur en í von um patentlausn á krísutímum.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020