Besta leiðin til að efla íslenskukunnáttu útlendinga er að setja á fót stöðluð íslenskupróf á mismunandi erfiðleikastigum og verðlauna þá sem þau taka með auknum tækifærum í atvinnulífi. Þannig væri til dæmis hægt að krefjast ákveðinnar íslenskukunnáttu af strætóbílstjórum, meiri kunnáttu af þeim sem ynnu við umönnun, og enn meiri af þeim sem vildu gerast læknar, kennarar eða lögfræðingar.
Til allrar hamingju þurfa Íslendingar ekki að finna upp hjólið þegar kemur að því að búa til hæfnisviðmið fyrir umrædd íslenskupróf en Evrópuráðið hefur búið til svokallaðan samevrópskan viðmiðunarramma um tungumálakunnátu, sem raunar hefur þegar verið þýddur yfir á íslensku. Í honum er færni einstaklingar skipt upp í 6 stig, A1,A2,B1,B2,C1 og C2.
Þannig er nemandi sem náð hefur C2 stigi alvígur á tungumálið á öllum hliðum og getur skilið allt sem skrifað er og sagt, greint milli fínna blæbrigða og stíls og endursagt jafnóðum á flekklausu máli. Ekki er endilega hægt að ætlast til að stór hluti útlendinga nái þessu stigi enda hafa fæsti innfæddir það sem þarf til að standast slík próf en þó mætti til dæmis gera kröfur um að þeir sem hyggðu á íslenskukennslu eða fengjust við þýðingar næðu slíkum prófum.
Segja má að C1 stigið jafngildi stúdentsprófi í tungumálinu enda er víða gerð krafa um að menn nái sambærilegum prófum til að geta stundað háskólanám sem fram fer á viðkomandi tungumáli. Þannig yrði því eðlilegt að krefjast þess að þeir sem tilheyrðu hinum háskólamenntuðu stéttum, til dæmis læknar, kennarar og lögfræðingar, næðu prófum á C1 stigi ef þeir ætluðu að starfa í viðkomandi grein á Íslandi.
Einsstaklingur sem náð hefur B2 stigi getur notað tungumálið sem vinnumál ef um er að ræða hans eigið fagsvið. Flest þeirra fagtengdu tungumálaprófa sem boðið er upp á í Evrópu eru þannig B2-próf. Hér væri því hægt að láta prófið samanstanda af ákveðnum kjarna og síðan gætu menn valið sér ákveðna sérhæfingu. Þannig værir í raun boðið upp á nokkur próf, til dæmis:
* Íslenska B2, með áherslu á heilbrigðisgreinar
* Íslenska B2, með áherslu á þjónustustörf
* Íslenska B2, með áherslu á tæknigreinar
B1-kunnátta svarar til „ferðamannakunnáttu“ á tungumáli sem líklegast nægir í einföld þjónustustörf eða sem áfangi í lengra námi. Neðstu stiginn tvö, A1 og A2, duga varla til virkrar atvinnuþátttöku en mætti þó nota sem lágmarksviðmið og til að verðlauna þá sem eru að hefja sitt íslenskunám. Að mörgu leyti eru vinnustaðir nefnilega einhverjir bestu tungumálaskólar sem völ er á, og það er ekki hægt að ætlast til að menn læri íslensku í tvö ár áður en þeir fari að vinna í leikskóla, en það er auðvitað sjálfsagt að ráða frekar fólk sem hefur sýnt að það hafi áhuga á að leggja á sig erfitt tungumálanám.
Það er því von að ekki muni líða langur tíma þar til við getum lesið auglýsinga á borð við þessar:
„Íslenskukennari óskast í móttökudeild nýbúa, C2 íslenskukunnátta nauðsynleg.“
„Heilsugæslustöð Vesturbæjar óskar eftir að ráða lækni. C1 tungumálakunnátta nauðsynleg.“
„Starfsmaður óskast í heimaþjónustu aldraðra. B2 kunnátta í íslensku æskileg.“
„Strætó bs. leitar að strætóbílstjórum. A1-A2 kunnátta í íslensku lágmark, verður að ná B1-prófi innan árs.“
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021