Fyrir átta árum kom út grein á vegum Alþjóðabankans þar sem rannsakað var hvort háir vextir myndu styðja gjaldmiðla sem ráðist væri á af spákaupmönnum.
Niðurstöður rannsóknar Aart Kraay, hagfræðings Alþjóðabankans, eftir að hafa skoðað árásir á gjaldmiðla 75 ríkja á löngu tímabili, voru að það væri ekki hægt að fullyrða að háir vextir myndu afstýra snöggu gengisfalli gjaldmiðils.
Seðlabanki Íslands hefur tilkynnti í gær um 0,5% vaxtahækkun þannig að þeir verði 15,5% sem er það hæsta sem þekkist á byggðu bóli í heiminum í dag.
Þetta er tuttugasta og fyrsta skipti í röð sem bankinn hækkar stýrivexti í þeim tilgangi að minnka verðbólgu í landinu síðan í Febrúar 2003.
Eins og farið var yfir hér á Deiglunni fyrr í vikunni þá starfar Seðlabanki Íslands eftir því eina markmiði að berjast gegn verðbólgu; og hann hefur einungis eitt vopn í hendi sér á vígvellinum, stýrivexti.
Á meðan verðbólga í landinu er há, þá ættu sömuleiðis vextir að vera háir ef Seðlabankinn á að vera sjálfum sér samkvæmur. Háir vextir þýða að það er gott að eiga peninga í banka en slæmt að skulda þá.
Það er þó eitt atriði sem Seðlabankinn mætti útskýra örlítið betur fyrir þjóðinni, sem er hlutverk íslensku krónunnar í verðbólgunni.
Það virðist vera að vextir Seðlabanka séu að einhverju leyti háir til þess að styðja við gengi krónunnar.
Hagfræðingurinn Ársæll Valfells bendir þannig á að sú aukning verðbólgu sem við sjáum í dag sé nær einungöngu vegna falls krónunnar, ekki vegna ofneyslu þjóðarinnar. Þar erum við komin út fyrir hefðbundnar ástæður þess að halda háum vöxtum. Fólk getur lítið tekið neyslulán í dag. Af hverju á þá að hækka vexti?
Sú spurning hlýtur að vakna þegar menn fylgjast með falli krónunnar hvort hér sé um að ræða löngu tímabært fall sem hafi einungis verið frestað með háum vöxtum. Ef svo er þá má spyrja: Hver er ábatinn?
Fólki hefur orðið tíðrætt um árásir vogunarsjóða á íslensku krónuna á undanförnum vikum. Vogunarsjóðir taka yfirleitt stöður þegar þeir sjá ójafnvægisástand sem þeir telja að muni leita til jafnvægis.
Eins og of sterka krónu haldna uppi af geysiháum stýrivöxtum.
Er það rétt að háir vextir muni verja krónuna fyrir árásum vogunarsjóða sem telja krónuna of sterka og veika fyrir árásum?
Fyrir hið fyrsta þá vörðu vextirnir ekki krónuna þegar hún tók risadýfu frá því að gengisvísitalan var 130 í byrjun Marsmánaðar upp í að vera 164 seinna í sama mánuðinum.
Einnig benda ofangreindar rannsóknir Aart Kraay til þess að áhrif vaxta séu ofmetin.
Það er skiljanlegt þegar Seðlabankinn reynir að afstýra verðbólgu með því að hvetja til sparnaðar en það er hinsvegar ekki jafn skiljanlegt þegar Seðlabankinn frestar verðbólgu með því að halda óeðlilega háu gengisstigi eins og gert hefur verið.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021