Bankastjórar Seðlabanka Íslands eiga ekki 7 dagana sæla þessi misserin. Verðbólga hefur ekki verið hærri í 6 ár og útlit er fyrir að gengisfall síðustu vikna muni ýta 12 mánaða verðbólgu upp í sitt hæsta gildi síðan í óðaverðbólgunni 1990. Margir efast um peningastefnuna sem Seðlabankinn rekur en hvað er Seðlabankinn að reyna að gera og hvers vegna tekst það ekki?
Hlutverk Seðlabankans er að halda verðbólgu innan ákveðinna marka. Til þess hefur hann eitt stýritæki, stýrivexti sína.
Það sem Seðlabankinn er að gera þegar hann hækkar eða lækkar vexti sína er hann að reyna að hvetja eða letja sparnað eða neyslu í landinu.
Þegar Seðlabankinn hækkar vexti sína gerir hann lán dýrari og sparnað meira aðlaðandi. Með því reynir hann að hvetja fólk til þess að spara og eyða síðar, eða taka síður lán þar sem þau verður dýrt að greiða þegar á gjalddaga koma.
Margir hafa sagt stýrivaxtahækkanir Seðlabankans gagnslausar þar sem aðgengi að erlendu lánsfé hefur verið nægt og á hagstæðum vöxtum. Þessi rök eru að hluta til réttmæt en að hluta til ekki.
Þegar háir vextir eru í íslensku krónunni þá styrkist hún. Sú styrking er hins vegar tímabundin og markaðurinn gerir alltaf ráð fyrir að hún muni veikjast aftur þegar vextirnir lækka aftur. Þannig gerir vaxtahækkun í íslenskum krónum erlend lán dýrari þótt vextir þeirra séu áfram lágir. Jafnframt gerir styrkingin fjárfestingu í erlendum verðbréfum hagstæðari.
Gallinn við styrkinguna sem vaxtahækkunin veldur er sú að erlend neysla verður ódýrari. Það veldur því að ef sparað er til seinni tíma fyrir erlendum hlut, segjum bíl, þá tapast gróðinn sem hærri vextir valda vegna þess að þegar sparnaðarins skal neyta er verð hlutarins líka orðið hærra. Þannig hefur vaxtahækkun í krónu og tilheyrandi styrking hennar engin áhrif, jákvæð eða neikvæð, á skynsaman neytanda sem hyggst kaupa sér erlendan bíl á næstunni, það að bíða með kaupin er ekkert hagstæðara en að kaupa strax, en heldur ekki óhagstæðara.
Vandamál Seðlabankans er því hversu stór hluti neyslu Íslendinga er innfluttur. Vaxtahækkanir hans bíta klárlega, en aðeins að því marki sem innlendi hluti neyslunnar er.
Einnig er líklegt að minni fyrirtæki sem hafa séð fram á að lifa ekki af háan vaxtakostnað í krónum og fjármagnað sig í erlendri mynt, til að lifa að minnsta kosti eitthvað áfram og vona að veiking krónunnar komi ekki alveg strax og verði ekki of mikil. Áhrif þessa geta verið þau að ýkja enn niðursveifluna þegar hún kemur.
Á síðustu árum hefur Seðlabankinn gert allt sem hann hefur mögulega getað til þess að gera sparnað hagstæðan og lánsfé dýrt. Það hefur honum tekist. Hins vegar hefur honum greinilega ekki tekist að fá fólk til að spara og hætta að taka lán. Ekki er við hann að sakast vegna þess og í því liggur helsti efnahagsvandi Íslendinga, fyrir utan alþjóðlega fjármálakreppu sem erfitt var að gera ráð fyrir eða undirbúa.
Nú kreppir að skóinn og fjármálaþrengingar á mörgum heimilum. Margir vilja draga þann lærdóm af yfirstandandi þrengingum að krónan sé ónýt og annan gjaldmiðil þurfi til að taka við. Mögulega er það skynsamlegast og verður það lausnin til lengri tíma. En krónan verður hér áfram um sinn og þangað til er hinn lærdómurinn mikilvægari. Hann er sá að þegar Seðlabankinn hamast við að mása og blása og hækka vexti, þá er kominn tími til að borga lánin sín og fara að spara. Annars hækkar hann vexti bara ennþá meira.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011