Í gær tryggðu Liverpool og Chelsea sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Í kvöld getur Manchester United orðið þriðja enska liðið í undanúrslitunum þegar það mætir AS Roma frá Ítalíu. Hvernig sem fer í kvöld er ljóst að enska deildin er að stimpla sig inn sem sú sterkasta í Evrópu.
Frá árinu 1990 hafa ensk lið einungis komist fjórum sinnum í úrslit Meistaradeildarinnar og þar af þrisvar á undanförnum þremur árum. Fyrst var það Manchester United sem vann Bayern Munchen á dramatískan hátt árið 1999 á Nou Camp í Barcelona. Liverpool komst í úrslitin 2005 og 2007 og lentu í bæði skiptin á móti AC Milan. Liverpool vann fyrri viðureignina en varð að lúta í gras fyrir ítalska stórveldinu tveimur árum seinna. Arsenal komst síðan í úrslit Meistaradeildarinnar árið 2006 en tapaði þar á móti Barcelona.
Á sama tímabili hafa spænsk lið komist átta sinnum í úrslit Meistaradeildarinnar og ítölsk lið þrettán sinnum. Enska deildin hefur lengi verið talin ein af þremur sterkustu deildum í Evrópu, ásamt þeirri ítölsku og spænsku, og því hafa það verið mikil vonbrigði hversu litlum árangri ensk lið hafa náð á móti þeim bestu í Evrópu. En nú virðast ensku liðin vera að taka við sér og hafa þau verið að ná góðum árangri í Meistaradeildinni á síðastliðnum þremur árum.
Þessi uppgangur enska fótboltans má að miklu leiti þakka auknu fjármagni sem ensku stórliðin hafa fengið til leikmannakaupa. Peningurinn hefur að mestu leiti komið frá erlendum milljarðarmæringum sem hafa verið duglegir að fjárfesta í enskum liðum á undanförnum árum. Frægt er þegar Roman Abramovich keypti Chelsea árið 2003 en hann hefur eytt hundruðum milljónum evra í leikmannakaup. Malcolm Glazer og synir sem keyptu Manchester United árið 2005 hafa einnig verið rausnarlegir að veita peninga til leikmannakaupa og það sama má segja um Bandaríkjamennina Tom Hicks og George Gillet sem keyptu Liverpool í fyrra. Arsenal hefur þó ekki verið að eyða eins miklum peningum í leikmannakaup eins og hin þrjú liðin en hafa þó verið að auka kaupin á undanförnum árum. Það hafa margir fjársterkir aðilar keypt hlut í félaginu að undanförnu og má þá helst nefna rússneska auðkýfinginn Alisher Usmanov hinn íranska Fahrad Moshiri.
Aukið fjármagn enskra liða hefur laðað bestu fótboltamenn og þjálfara heims í ensku deildina. Á þessu leiktímabili hafa fjögur bestu liðu Englands varið um það bil 230 milljónum evra í leikmannakaup og það sama gildir um fjögur bestu lið Spánar. Ítalar hafa þó ekki verið að eyða eins miklu, en fjögur bestu lið þeirra hafa einungis eytt um 90 milljónum evra á tímabilinu. Þetta getur á einhvern hátt útskýrt lægð ítölsku liðanna í ár en hafa ber í huga að ítalskur fótbolti hefur gengið í gegnum ýmislegt á síðustu misserum.
Það er ljóst að peningar eru orðnir gífurlega mikilvægir í nútímafótbolta. Bestu fótboltamenn heims sækjast í þau lið þar sem mestan pening er að fá. Á meðan ensk lið halda áfram að styrkja sig fjárhagslega og fjárfesta í leikmönnum þá er mjög líklegt að þau muni halda stöðu sinni á meðal þeirra allra bestu í Evrópu. Árangur enskra liða í Meistaradeild Evrópu í ár er engin tilviljun, enski boltinn er í sókn.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010