Fyrir mánuði síðan gerði ég grein fyrir þeim ástæðum sem Robert A. Pape hefur sagt þær helstu sem liggi að baki þeirri ákvörðun að grípa til sjálfsmorðssprengjuárása. Þær eiga að mínu viti misvel við en til þess ber að líta að það tímabil sem hann skoðaði náði aðeins fram til ársins 2002.
Það er með þetta eins og svo margar aðrar spurningar sem maður veltir um kollinn –því meira sem maður les því fjær svarinu telur maður sig vera.
Við erum því kannski litlu nær heldur en við upphaf vangaveltnanna, og þó, hvert skref hlýtur að skipta máli.
Fyrsta hugdetta margra, og ekki að ástæðulausu, er sálfræðilegs eðlis. Verknaðurinn hlýtur að kalla á alvarlega bresti í geðheilsu viðkomandi. Þær rannsóknir sem til eru á viðfangsefninu sýna hins vegar fram á annað. Aðeins eitt dæmi finnst um slíkt þegar bakgrunnur árásarmanna er skoðaður.
Sömu sögu má segja af flestum þeim ástæðum sem hefðbundið er að grípa til, m.a. af álitsgjöfum fjölmiðla í kjölfar slíkra árása.
Bruce Hoffman hefur skrifað mjög læsilega og áhugaverða bók sem heitir Inside terrorism og kom aukin og endurbætt útgáfa hennar út árið 2006. Þar fjallar hann um hryðjuverk á breiðum grundvelli og tekur sjálfsmorðsárásir m.a. fyrir í einum kafla bókarinnar. Í kaflanum tekur hann saman nokkuð sem hann kallar megineinkenni sjálfsmorðsárása og er sú samantekt hans að mörgu leyti mjög gagnleg til skilnings á fyrirbærinu að mínu viti.
Líkt og Pape segir hann sjálfsmorðsárásir fyrst og síðast þaulskipulagðar og ákvörðun um þær teknar vitandi vits og tilviljun ekki ráða því hvar drepið er niður fæti. Þá gerir hann ekki lítið úr þætti trúarinnar varðandi sjálfsmorðsárásir og bendir á að trúin sé mikilvægt verkfæri, sérstaklega hópa íslamista, til þess að tryggja stöðugt flæði viljugra gerenda. “Guðfræðilegar” skýringar og réttlætingar skipti þar miklu máli.
Spurningunni um það hvað geri sjálfsmorðsárásir að svo vinsælli baráttuaðferð svarar hann á nokkuð einfaldan hátt og týnir til nokkur atriði sem öll eru praktísks eðlis.
Fyrir það fyrsta er um ódýra aðferð að ræða, t.a.m. er talið að árásirnar þann 11. september 2003 hafi kostað á bilinu 400.000- 500.000 dollara sem eru smámunir miðað við áhrifin. Hægt er að gera sér í hugarlund að einfaldari árásir kosti mun minna en í því sambandi hefur verið nefnt að venjuleg sjálfsmorðsárás Palestínumanna kosti um 150 dollara.
Í annan stað er mjög líklegt að árásin takist. Auðvelt er að stýra sprengjunni þannig að hún valdi sem mestum skaða enda má í raun segja að sprengjan sé hugsandi einstaklingur. Það býður einnig upp á sveigjanleika hvað varðar staðsetningu, tímasetningu o.s.frv. ef bregðast þarf við óvæntum aðstæðum.
Í þriðja lagi eru þær einfaldar. Aðeins þarf að finna viljugan einstakling, afhenda honum sprengjuna og senda hann af stað. Flóttaáætlun er óþörf. Það eina sem getur farið úrskeiðis er að árásarmaðurinn sé stöðvaður áður en hann getur látið af árásinni verða eða bilun verði í sprengibúnaði.
Í fjórða og síðasta lagi er sálfræðileg áhrif verknaðarins gríðarleg. Árásir sem þessar vekja ugg í brjóstum þeirra sem vitni verða að þeim og hreifir við fólki svo um munar. Vegna grimmdar þeirra og eins því að við skiljum ekki almennilega hvaða hugsun geti mögulega legið að baki slíkum grimmdarverkum. Það tryggir einnig umfjöllun fjölmiðla sem málið að svo mörgu leyti snýst um.
Með þessari upptalningu á þessum megineinkennum tel ég okkur vera komin nær svari heldur en við vorum áður.
Þetta snýst fyrst og fremst um taktík. Sjálfsmorðssprengjuárásir eru hernaðaraðgerð, hernaðaraðgerð sem beitt er gegn almennum borgurum, en hernaðaraðgerð sem hentar vel hryðjuverkasamtökum vegna einfaldleika síns og gríðarlegra áhrifa.
En það sem öllu skiptir, hernaðaraðgerð sem virkar.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012