1. apríl var í gær með tilheyrandi göbbum og gabbtilraunum.
Það er gömul og góð hefð að reyna að ginna menn í 1.apríl-hlaupið. Fjölmiðlar gerast jafnan stórtækir og grípa jafnvel til samráðs til að hámarka glens dagsins.
Þetta árið var rykið dustað af klassíska gabbinu um ódýrt bensín í skamman tíma, blásið var til torfæruaksturs á Austurvelli og skammt þar frá spilaði Bob Dylan í Austurstrætinu eins og sönnum þjóðlagasöngvara sæmir, svo fátt eitt sé nefnt.
En rétt í þann mund að aðalfréttatímum sjónvarpstöðvanna var að ljúka birtist ítarleg útlistun á göbbum dagsins á mbl.is, kl.19:32. Vonandi náði það ekki að stöðva marga verðandi iPhone-eigendur á leið í verslanir Vodafone eða norðanmenn sem hugðust fara í opnunarsiglingu Grímseyjarferjunnar. Þeim sem þetta ritar finnst fjölmiðlar alveg mega bíða þangað til fyrsti dagur aprílmánaðar er runninn sitt skeið með að upplýsa um gildrurnar sem reynt er að veiða fólk í þann dag.
Það er vissulega eiginleiki góðra fjölmiðla að vera fyrstir með fréttirnar, kafa djúpt og grafa upp sannleikann.
En stundum má satt kyrrt liggja, sumar fréttir geta beðið í svolítinn tíma og sumar staðreyndir þurfa aldrei að koma fram. Eða mega lesendur mbl.is kannski búast við glænýjum upplýsingum um tilvist jólasveinsins um næstu jól? Ég vona ekki.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011