Í einhverjum mesta brotsjó sem íslenskt hagkerfi hefur gengið í gegnum á síðustu árum heyrist oft spurt: er botninum náð? Eina skynsamlega svarið við þessari spurningu er að við munum ekki vita það fyrr en við erum komin vel uppúr síðasta öldudalnum þar sem eðli hagsveiflna er að þær eru metnar útfrá fortíðargögnum.
Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna skrifaði grein í Financial Times þann 16 Mars (1) þar sem hann fór yfir stöðu mála eins en hann telur að kjarni vandans liggi í ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaðnum í Bandaríkjunum.
Gríðarlegur vöxtur á húsnæðismarkaðinum í Bandaríkjunum er af mörgum talinn hafa byrjað þegar áðurnefndur Greenspan lækkaði vexti í Bandaríkjunum, án afláts, til að koma í veg fyrir efnahagslegan samdrátt í kjölfar atburðanna 11. September, sprengingu netbólunnar og Enron hneykslisins. Eftir mikla lækkunarhrinu fóru stýrivextir lægst niður í 1% í Júní árið 2003 (2).
Húsnæðismarkaðurinn tók þá mikinn kipp við þessa miklu vaxtalækkun. Sala á einbýlishúsum rauk upp og verð á húsnæði hækkaði hratt vegna þess hversu ódýra fjármögnun var hægt að fá.
Um mitt ár 2006 hóf að síga á ógæfuhliðina hjá mörgum nýjum húseigendum sem neyddust að lokum til þess að rýma húsið sitt og flytja á ný í leiguhúsnæði vegna erfiðleika við að borga af nýju lánunum. Eigendur lánanna (fjármálastofnanir) sátu eftir með lánið í annarri hendinni og auða fasteign í hinni.
Afleiðingin var sú að það byggðist upp lager af 600.000 einbýlishúsum (3) til sölu. Verktakafyrirtæki sem náðu ekki að draga úr umsvifum í tæka tíð bættu 200.000 húsum við. Verð á einbýlishúsum í bandaríkjunum hefur rækilega gefið eftir í kjölfar þessa umframboðs en það hefur aðeins gerst nýlega að verðlagið hefur tekið að nálgast eftirspurnarverðlag.
Eftir því sem þessi lager vinnst niður mun ástandið réttast við og jafnvægi nást á markaðnum. Samkvæmt Greenspan eru ennþá nokkrir mánuðir í að það gerist en hann vonast til þess að lagerinn minnki um 400.000 hús á árinu 2008.
Þegar jafnvægi hefur náðst milli framboðs og eftirspurnar þá munu fjármálastofnanir sjá hvert er raunvirði þeirra fasteigna sem þau eiga veð í. Þau geta þá tekið á sig þær afskriftir og hreinsað úr bókum sínum (í dag eru bankar að „áætla tap“ á grundvelli verðmats á subprime lánavafningum). Að því loknu verða Fjármálastofnanirnar að endurfjármagna sig eða hætta rekstri.
Hægt og sígandi ætti svo að aukast gagnvirkt traust aðila á fjármálamarkaði og útgáfa lána og skuldabréfa að komast í gott horf aftur.
Nú er bara að bíða og sjá hvort Greenspan hafi metið stöðuna rétt.
(1) Greinina má finna hér: www.ft.com
(2) Stýrivextir seðlabankans í BNA: http://www.federalreserve.gov/fomc/fundsrate.htm
(3) e. Single Family Home
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021