“Ég þakka Guði fyrir það að vera alveg trúlaus,” sagði maðurinn.
Það er hægt að brosa að þessari tilvitnun. En þegar betur er að gáð þá er mikilvægur boðskapur í þessari þversögn og ekki undarlegt eða út í hött að taka svona til orða.
Þakklæti er mikilvægt atriði í kristinni trú sem gleymist oft. Sænski rithöfundurinn og leikritaskáldið August Strindberg (1849-1912) sagði: “Það er vissulega sælla að gefa en að þiggja en það krefst mikils sálarþreks að kunna að þiggja og vera þakklátur.” Einnig er sagt að maður metur það eitt sem maður þakkar.
Og þar getur hinn vantrúaði lent í vanda. Kristinn maður þakkar Guði líf og lán. Við þiggjum lífið frá Guði og góðar gjafir hans og þökkum það í bænum okkar og í lífi okkar. Þegar atburðir verða í lífinu sem gera okkur innilega glöð og hamingjusöm þá horfum við til himins og þökkum Guði. Nóbels skáldið Halldór Laxness segir í þekktu kvæði: Já, vita eitthvað anda hér á jörð, / er ofan standi minni þakkargjörð, / í stundareilífð eina sumarnótt. / Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt.
Við lifum í samfélagi sem er mótað af kristinni sögu og menningu í gegnum aldirnar. Samfélagi, sem í svo ótalmörgu er það sem það er vegna áhrifa frá þeirri trú sem upphófst endur fyrir löngu í austurlöndum nær.
Og í dag er páskadagur. Við minnumst atburða sem eru svo undarlegir að við eigum ekki auðvelt með að meðtaka þá með skynseminni en við skoðum þá með augum trúarinnar og út frá reynslu sögunnar.
Síðasta vikan í lífi Jesú frá Nazaret fær mikið rúm í guðspjöllunum. Þriðjungur guðspjallanna fjallar um atburðina frá pálmasunnudegi til páskasunnudagsins. Það segir okkur hvað þessir atburðir dymbilviku og páska skiptu miklu máli um það sem síðar gerðist þegar fyrstu kristnu söfnuðirnir litu um öxl og reyndu að átta sig á hver Jesús var og hvað hafði gerst.
Til samanburðar má nefna að fæðingarfrásögurnar fá lítið rúm í guðspjöllunum og ekki er minnst á fæðingu Jesú í Markúsar og Jóhannesarguðspjalli og Páll postuli sem ritaði bréfin, sem eru elstu heimildir um kristna trú, nefnir ekki heldur fæðingu Jesú. En hjá honum umhverfist allt um hjálpræðisverk Guðs en það birtist í því að Jesús sem var sannur guð og sannur maður var ranglega dæmdur og krossfestur en Guð reisti hann upp frá dauðum á þriðja degi. Páll tekur reyndar svo djúpt í árinni að fullyrða að ef Kristur reis ekki upp frá dauðum þá er ónýt prédikun og trú kirkjunnar.
Þrátt fyrir deilur í kirkjunni um margvísleg efni og þrátt fyrir fjöldann allan af kirkjudeildum í veröldinni þar sem fólk aðgreinir sig í skilningi og túlkun á margvíslegum trúargreinum þá er kristið fólk með einum huga þegar kemur að atburðum dymbilviku og páskanna.
Við eigum oft erfitt með að trúa því með hjartanu sem skynsemi og þekking samtímans hafnar. Við lesum guðspjöllin með gleraugum okkar tíma og finnst þá margt í guðspjöllunum heldur ótrúlegt í ljósi þekkingar okkar og skilnings á veröldinni. Það á líka við um atburði páskanna. En hér er það trúin sem sigrar efann eins og lífið sigrar dauðann – hvað sem öllu öðru líður.
Þó að við séum hikandi og efagjörn þá breytir það ekki trúarboðskapnum og því erindi sem Kristur á við okkur í dag. Hvað sem sagnfræðinni líður þá sjá augu trúarinnar hinn upprisna Krist og anda hans að störfum í hjörtum sem kunna að finna til. Hinn upprisni Kristur lifir í huga og höndum þeirra sem taka orð Jesú alvarlega og vilja hafa hann að fyrirmynd á vegferð okkar og í samskiptum við þá sem eru með okkur á veginum.
Ég þakka Guði fyrir það að vera trúaður. Að ég trúi því að Kristur hafi sýnt okkur með lífi sínu og orðum hvernig við eigum að koma fram hvert við annað og að við eigum óttalaust að lifa lífinu til fulls. Trúa því að eitthvað andar hér á jörð sem ofar standi minni þakkargjörð.
Páskarnir eru þakkarefni vegna þess að þeir viðhalda þeirri trú og efla þá von að Guð hafi bæði vilja og vald til að leiða allt fram til góðs.
Gleðilega páskahátíð.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020