Efnahagsmál hafa einokað umræðuna á Íslandi að undanförnu og kannski ekki furða. Neikvæðar fréttir af mörkuðum eru nú allsráðandi sem gefur til kynna að kreppa sé óumflýjanleg.
Ástand markaðanna einkennist af áhættufælni fjárfesta og þó að það eigi vonandi eftir að skána á næstu mánuðum er ólíklegt að heimsmarkaðir fari í fyrra horf alveg á næstunni. Fjárfestar munu eflaust stíga varlega til jarðar sem þýðir að ekki verður eins auðvelt, eða ódýrt, að fjármagna áhættusamar fjárfestingar. Því miður virðist íslenska krónan falla í þann flokk hjá erlendum fjárfestum sem og flest félög sem verslað er með í Kauphöll Íslands. Því má að vissu leyti segja að hart fall íslensku krónunnar og hlutabréfa hafi verið viðbúið.
Í kjölfarið má búast við verðbólgu, samdrætti hjá fyrirtækjum, uppsögnum og tíðari gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja.
Þó að það sé bæði þarft og hollt að átta sig hvernig málum er nú háttað, er mikilvægt að fólk gleymi sér ekki öllum þessu neikvæðu fréttum og telji framtíðina vonlausa. Það er eitt að berja sér á brjóst og stæra sig af öflugu efnahagslífi þegar aðstæður eru eins og þær gerast bestar og annað að hafa nógu sterk bein til að standa fast í báða fætur þegar á reynir og horfa nokkra mánuði eða jafnvel nokkur ár fram í tímann.
Ef svo illa fer að atvinnuleysi aukist og verulegur samdráttur verður í atvinnulífinu er nauðsynlegt að koma á auga á tækifærin sem slíkt ástand skapar. Ágætis rök ættu til dæmis að vera fyrir því að nýsköpunarfyrirtæki geti lagt grunninn að framtíðartækifærum þar sem ekki ætti að vera skortur á hæfileikaríku fólki tilbúnu í krefjandi og skapandi verkefni.
Menntun er líka eitthvað sem við ættum hlúa sérstaklega að í slíku árferði og tryggja þannig atvinnulífið haldi því forskoti sem það hefur skapað sér á undanförnum árum. Einstaklingar ættu að sjá sér leik á borði og bæta við menntun sína. Einnig hefur það sýnt sig í kreppu einbeita fyrirtæki og einstaklingar sér að því sem raunverulega skiptir máli. Hætt er við gæluverkefni og óþarfa eyðslu er haldið í lágmarki sem skilar sér í aukinni samkeppnishæfni þegar fram líða stundir.
Íslendingar standa nú á tímamótum. Hvað við gerum á þessum tímamótum mun skipta miklu máli fyrir framtíðarþróun í landinu og framtíðarhagvöxt. Viljum við reyna að bjarga málunum með öðru álveri og olíuhreinsistöð eins og nú er rætt um og stefna þannig að einhverskonar iðnbyltingu, ekki ólíkri þeirri sem flest vestræn ríki gengu í gegn um fyrr á öldum? Er kannski réttara að huga að annarskonar verðmætasköpun sem hentar þróuðu hagkerfi eins og okkar betur?
Mikið hefur farið fyrir löndum okkar á síðustu árum í viðskiptalífinu og menn jafnvel stært sig af ímynduðum þjóðareinkennum til að skýra hraðan vöxt og árangur íslenskra fyrirtækja. Þó að það sé ólíklegt að Íslendingar séu nokkuð frábrugðnir öðrum þjóðum hvað þetta varðar virðist manni að við getum eignað okkur almenna bjartsýni. Þessa bjartsýni verðum við að virkja og einbeita okkur að betri hugmyndum í stað þess að vinna að mjög umdeildum verkefnum sem að mestu snúast um að vinna hráefni fyrir meiri verðmætasköpun annars staðar í heiminum. Slík verkefni eru metnaðarlaus og gætu reynst skammgóður vermir.
Þeir sem sjá frumleg og framsækin tækifæri í dag munu leiða góðæri næstu ára.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021