Árleg ráðstefna Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins var haldin í norrænu miðstöðinni í New York í gær. Forsætisráðherra opnaði ráðstefnuna, og í kjölfarið komu bankastjórar stóru bankanna þriggja ásamt forstjóra Baugs. Frá upphafi var ljóst að mál málanna var hátt vaxtaálag íslenskra banka og ríkissjóðs, sem og fjármögnun og staða íslenska viðskiptalífsins.
Lárus Welding, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurjón Árnason lögðu allir mikla áherslu á að langt sé í að þeir þurfi að sækja sér meira fjármagn, að vaxtaálag á bankana og ríkissjóð sé úr takti við raunveruleikann og að bankarnir séu að vinna gott starf við að byggja upp innlán sín, til dæmis með smásöluinnlánsreiknginum á Evrópumarkaði.
Það var þó greinilegt að ráðstefnugestir voru ekki allir sannfærðir um að smásöluinnlán væru töfralausn á fjármögnun bankanna. Menn veltu fyrir sér hver binditími slíkra innlána væri og hvað myndi gerast ef viðskiptavinir misstu trúna á slíkum reikningum. Sigurjón upplýsti að neikvæðar endurskoðanir á lánshæfismati nú nýverið hefðu engin áhrif haft á innlán á slíkum reikningum, sem er í sjálfu sér jákvætt. Það er þó fullljóst að evrópskir sparifjáreigendur fylgjast með fréttum af sínum innlánsstofnunum og geta ferið fljótir til að kippa að sér höndunum, eins og sannaðist af biðröðunum fyrir utan Northern Rock nú í haust. Þeir eru því ólíklegir til að reynast kjölfesta ef verulega harðnar á dalnum
Yfirlýsingar bankastjóranna um vaxtaálag skuldatrygginga voru aftur á móti mjög jákvæðar. Þótt álagið í slíkum samningum sé mikilvægur mælikvarði er nauðsynlegt að hafa í huga að slíkir samningar eru ekki á milli lántakenda og lánadrottna, heldur geta þeir verið á milli markaðsaðila sem eru algerlega ótengdir upphaflegum aðilum lánsviðskiptanna. Slíkir samningar, sem nefnast Credit Default Swaps (CDS) eru einfaldlega framvirkir samningar þar samið er um að seljandinn greiði kaupandanum ákveðna upphæð ef til greiðsluþrots kemur. Hugmyndin er að verðlagning á slíkum samningum endurspegli verðlagningu á undirliggjandi skuldabréfum, en sú er þó ekki alltaf raunin. Hinar jákvæðu fréttir bankastjóranna voru að þeir hefðu falast eftir að kaupa eigin skuldabréf, sem og ríkisskuldabréf, en að engin bréf hafi fengist á kjörum sem endurspegluðu skuldatryggingaálagið. Ef rétt er þýðir það að menn séu tilbúnir að lána Íslendingum á mun betri kjörum en fréttir herma.
Til viðbótar við gengi íslensku bankanna var töluvert rætt um gengi íslenska viðskiptalífsins í heild sinni, og Geir Haarde kynnti í opnunarræðu sinni samkeppnishæfni Íslands, hversu gegnsætt, skilvirkt, lýðræðislegt og mannvænt íslenskt þjóðfélag er. Þar vísaði hann í stöðu okkar í ýmsum alþjóðlegum könnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana. Einnig benti hann á hversu lágir fyrirtækjaskattar væru á Íslandi og að stjórvöld stæðu fast á því að tryggja fyrirtækjum áframhaldandi gott umhverfi. Hann hafði litlar áhyggjur af atvinnuleysi á Íslandi, meðal annars vegna þess hversu mikið væri af tímabundnu vinnuafli, sem væri líklegt til að flytja annað ef harðnaði á dalnum. Eflaust er nokkuð til í því, þótt slíkur brottflutningur gæti einnig haft ýmsar neikvæðar afleiðingar, til dæmis á húsnæðisverð.
Segja má að gegnumgangandi þema ráðstefnunnar hafi verið hvort slæmt orðspor íslenskra banka og fjármálafyrirtækja erlendis orsakist af raunverulegum undirliggjandi vandamálum eða hvort einfaldlega sé um samskipta- og markaðsvandamál að ræða. Þótt ekki hafi verið kveðinn upp dómur um það á ráðstefnunni vildu þó sumir ráðstefnugestir taka með í reikninginn þann möguleika að um „raunverulegan undirliggjandi samskiptavanda“ sé að ræða. Í fjármálaheiminum skiptir ímynd og trúverðugleiki miklu máli og vandamál í markaðssetningu eru því ekkert „bara“ sem hægt er að afskrifa sem móðursýki og taugaveiklun einhverra útlendinga. Sem betur fer gefa ráðstefnur á borð við þessa tilefni til að ætla að yfirmenn íslenskra banka taki þessum samskiptavanda í fullri alvöru, og vonandi að það átak sem kemur fram í þeim skili sér í aukinni trú á íslensku fjármálakerfi.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020