Umræða um mögulega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum hefur farið hátt á undanförnum vikum. Málefnaleg og greinagóð umræða um málið er holl og mun hjálpa þeim sem að málinu koma að taka vandaðar ákvarðanir þegar þar að kemur.
Rök gegn því að byggja upp mikla iðnaðarstarfsemi vestur á fjörðum eru ýmisleg og má þá helst nefna umhverfisáhrif. Það hlýtur því að vera ófrávíkjanleg krafa að það verður ekki farið í neinar framkvæmdir nema að undangengnu ítarlegu umhverfismati.
Önnur rök sem eru notuð eru oft ekki jafn sterk né jafnvel rökstutt. Meðal annars hefur verið gefið í skyn að ímynd Vestfjarða sem ferðamannastaður verði gjörónýt ef af þessari framkvæmd verður og að ferðamenn muni hætta för sinni þangað. Þetta eru mjög stór orð og eru þess verð að þeim sé nánari gaumur gefinn. Er það virkilega svo að ferðamenn hætta að fara á staði þar sem er iðnaður?
Stærsta olíuhreinsunarstöð Noregs, Mongstad, er staðsett í héraðinu Hörðalandi sem er annar vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Noregi. Eflaust er fáum af þeim þúsundum íslendinga sem árlega heimsækja Kanrýeyjuna Tenerife það ljóst að í úthverfum höfuðborgarinnar, Santa Cruz, er olíuhreinsunarstöð. Ólíklegt er að þessi staðreynd verði til þess að lát verði á ferðum Íslendinga til eyjunnar í suðri. Eins er líklegt að mönnum bregði í brún ef þeir vissu að Grangemouth olíuhreinsunarstöðin í Skotlandi er í 40 mínútna fjarlægð frá Edinborg, einni fegurstu borg Bretlandseyja. Það er nýlokið mikilli iðnaðaruppbyggingu á Austfjörðum. Er mikið um að fólk sleppi því að fara til Austfjarða vegna þess iðnaðar sem þar er stundaður?
Iðnaður í einum dal, í einum firði Vestfjarða mun ekki gera það að verkum að ferðmenn hætti að leggja leið sína þangað. Þó einhverjir ferðamenn verði hvumsa þegar þeir heyra um tilvist iðnaðar á annesjum Íslands er ólíklegt að þúsundir manns sem ætluðu að skreppa vestur á firði hætti við þegar þeir frétti af því að það sé fólk þar sem vinni í verksmiðju. Jafnvel þó verksmiðjan vinni úr olíu. Á hinn bóginn mun 300 milljarða króna iðnaðaruppbygging hafa í för með sér miklar samgöngubætur sem munu auðvelda ferðamönnum aðgengi að Vestfjörðum. Það er mjög líklegt að olíuhreinsunarstöð mun hafa einhver áhrif á ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Það er hinsvegar ósannað að þetta verði slæm áhrif.
Sjá nánar:
http://www.hordaland.no/upload/Forsida/Dokument/hordaland-english.pdf (bls 5)
https://www.cepsa.com/corporativo/pages/c_4_3-eng.htm
http://www.energyinst.org.uk/education/refineries/grangemouth.htm
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021