Varla líður sá dagur að ekki sé minnst á orkumál okkar Íslendinga í fjölmiðlum. Umræðan í þjóðfélaginu hefur verið lífleg enda skiptar skoðanir á því hvaða leiðir skuli fara að aukinni raforkuframleiðslu sem er eðlilegt enda um margar leiðir að velja. Menn hafa nálgast málið frá ýmsum áttum. Flestir fallast á að raforkuþörf okkar muni aukast á næstu árum en menn greinir á um hvað skuli gera til að mæta þeirri þörf. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa mætt mikilli andstöðu og skiptast menn í fylkingar verndunarsinna og virkjunarsinna. Kjarnorkuver sameina sjónarmið þessara fylkinga að einhverju leiti. Í ljósi þess er ræsing fyrsta kjarnaofnsins á Íslandi innan fáeinna ára ekki fráleit hugmynd.
Þau raforkuver sem reist hafa verið hér á landi eru fyrst og fremst vatnsaflsvirkjanir og í seinni tíð jarðgufuver. Með slíkum virkjunum getum við af náttúrunnar hendi framleitt rafmagn á hagkvæman hátt. Raforkuframleiðsla hér er af þeim sökum talsvert frábrugðin því sem gerist víða annars staðar. Fá lönd hafa þann möguleika, sem við höfum, að fullnægja raforkuþörf sinni með framleiðslu rafmagns úr endurnýjanlegum auðlindum. Kostir vatnsaflsvirkjana eru margir og samanburður á þeim og flestum öðrum tegundum virkjana er þeim frekar hagstæður. Þær eru hagkvæmar og menga lítið sem ekkert umhverfið en hafa þó þann ókost að til að mæta náttúrulegum árstíðabundnum sveiflum í rennsli þarf yfirleitt að búa til stór uppistöðulón. Jarðgufuverin þurfa mun minna rými en það er hins vegar tæknilega erfitt að byggja stór jarðgufuver sem geta fullnægt raforkuþörf okkar.
Kjarnorkuver sameina að miklu leiti kosti vatnsafls- og jarðgufuvirkjana. Kjarnorkuver geta framleitt mikla raforku á litlu svæði. Auk þess eru þau álíka hagkvæm og vatnsaflsvirkjanir og líkt og þær virkjanir sem fyrir eru hér á landi eru þær nánast ekkert mengandi. Í Kanada er bæði mikið af kolum í jörðu (og reyndar uranium líka) og margir ónýttir vatnsaflsvirkjunar möguleikar, líkt og hér, en Kanada er samt í farabroddi þeirra landa sem nýta sér kjarnorku til raforkuframleiðslu. Í raun eru yfirburðir kjarnorkuvera ótvíræðir frá öllum sjónarhornum nema einu. Kjarnorkuver hafa þann ókost að alvarlegt óhapp getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir framtíð okkar. Við yrðum til dæmis að vera undir það búin að stór hluti landsins yrði óbyggilegur að minnsta kosti tímabundið og að fiskurinn í hafinu yrði óseljanlegur svo eitthvað sé nefnt. En óhapp í kjarnorkuveri sem hefði slíkt ástand í för með sér er afar ólíklegt. Ísland er virkt jarðfræðilega, jarðskjálftar og eldgos frekar algeng. En það kemur þó ekki í veg fyrir að hægt sé að reisa örugg kjarnorkuver hér. Í dag er hagkvæmasta stærð á kjarnorkuveri talin vera um 750-1250 MW. Það svarar til allrar núverandi framleiðslu Landsvirkjunar á rafmagni. Til samanburðar er fyrirhuguð Kárahnjúkavirkun allt að 750MW. Einn kjarnaofn myndi því sennilega nánast tvöfalda raforkuframleiðslu okkar.
Í dag eru rúmlega 50 ár síðan mönnum tókst að beisla orku óstöðugra atóma til friðsamlegra nota. Ýmis vandamál, sum tæknileg, eru enn óleyst. En stærsta vandamálið er líklega hve almenningur er mótfallinn kjarnorkuverum. Ótti manna minnkaði ekki við slysið sem sem varð í Chernobyl. Þó að tiltölulega fáir hafi látist af völdum þess, sennilega milli 30 og 300 manns, þá hefur það haft mikil áhrif á viðhorf almennings til kjarnorkuvera. Reglulega verða mannskæðari slys bæði í kolanámum og þegar stíflur bresta en það virðist hafa minni áhrif á viðhorf almennings. Vandamálið hvað gera skal við úrganginn úr kjarnorkuverum er enn óleyst, en margar hugmyndir hafa komið fram. Ein raunhæfasta lausnin er að senda úrganginn út í geim en áhættan við að skjóta á loft geimflaug með geislavirkan farm er enn of mikil. Úrgangurinn er því nú geymdur á öruggum stöðum þar til varanleg lausn á þessu vandamáli hefur verið fundin. Hafa verður í huga að það þarf aðeins um 20 mg af úranium til að framleiða eina kWh þannig að úrgangur myndast frekar hægt.
Framfarir í gerð kjarnaofna hafa verið miklar undanfarin ár, margar nýjar hugmyndir hafa komið fram sem draga verulega úr líkum á alvarlegum óhöppum svo sem nákvæmari stjórnun á kjarnahvörfunum með því að nota litlar kúlur af úranium í stað hefðbundinna stafa og notkunar heliums í stað vatns til kælingar og knúnings á túrbínum. Svo virðist vera að áhugi manna sé á ný að aukast á kjarnorku. Ástæðan fyrir því hve hratt þessu fleygir fram um þessar mundir er að einhverju leiti aukin umhverfisvitund almennings. Áhyggjur af súru regni, gróðurhúsaloftegundum og almennri loftmengun hafa gert það að verkum að athyglin hefur beinst aftur að kjarnorku. Önnur ástæða sem líklega vegur þyngra er að kolaorkuver víðast hvar eru farin að eldast og þarf að skipta þeim út. Um ný orkuver gilda mun strangari reglur um losun loftegunda og meðhöndlun úrgangs sem hefur í för með sér aukinn kostnað. Þar af leiðandi hafa meðal annars Bandaríkin lagt mikla áherslu á að finna lausnir á því hvernig hægt er að fækka kola- og gasorkuverum.
Það er líklegt að áform um byggingu kjarnorkuvers hér á landi mæti harðri andstöðu ef marka má viðbrögð við öðrum framkvæmdum til framleiðslu raforku. En kjarnorka getur vel verið nytsamleg hér eins og annars staðar. Ef kostir hennar eru vegnir af sanngirni og með skynsemi getur vel verið að ekki líði langur tími þar til að við bætumst í hóp þeirra þjóða sem nýta sér kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004