Óánægja með pistlaröð fyrrverandi ritstjóra

Pistlaröðin Pappírstígrar og slúðurberar I-IV eftir Þórlind Kjartansson, sem titlar sig fyrrverandi ritstjóra Deiglunnar, hefur vakið töluverða athygli. Flugufóturinn fór á stúfana og komst að því að boðskapur Þórlinds fær blendnar viðtökur hjá þeim sem lifa og hrærast í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Pistlaröðin Pappírstígrar og slúðurberar I-IV eftir Þórlind Kjartansson, sem titlar sig fyrrverandi ritstjóra Deiglunnar, hefur vakið töluverða athygli. Flugufóturinn fór á stúfana og komst að því að boðskapur Þórlinds fær blendnar viðtökur hjá þeim sem lifa og hrærast í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Einn heimildarmaður Flugafótarins, sem hefur fylgst með þjóðmálaumræðu hér á landi um margra ára skeið, segist telja að Þórlindur hafi veikt stöðu sína með þessum skrifum. „Það eru allir sammála um það,“ segir heimildarmaðurinn. Háværar raddir munu vera uppi um það að Þórlindur dragi skrif sín til baka.

Viðmælendur Flugufótarins telja margir að skrif Þórlinds kunni að skaða Deigluna og að svo gæti farið að kurr yrði meðal Deiglupenna vegna framgöngu hans. „Það er ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum,“ sagði áhrifamaður í fjölmiðlaheiminum í samtali við Flugufótinn.

En óánægja með skrif Þórlinds virðist síður en svo bundin við Deiglupenna. Heimildir Flugufótarins úr innsta valdakjarna Leigjendasamtakanna segja að þar á bæ gæti „vaxandi óánægju“ með framgöngu Þórlinds. Áhrifamaður í samtökunum sagðist ekki sjá hvernig Þórlindi væri stætt á því að taka þátt í þjóðmálaumræðu eftir þessa rispu: „Ég heyri það á mínu fólki að það hefur misst þolinmæðina.“

Þeir eru fleiri sem telja að sér vegið. Nafnlausir heimildarmenn eru mjög ósáttir við pistlaröð Þórlinds sem þeir kalla „aðför að nútímablaðamennsku“ og herma heimildir Flugufótarins úr þeirra röðum að þar á bæ ætli menn ekki taka þessum árásum þegjandi og hljóðalaust. Einn heimildarmaður Flugufótarins, sem hefur um árabil komið fram sem nafnlaus heimildarmaður fyrir fjölmargar fréttaveitur, segir að engin stétt geti látið vega þannig að starfsöryggi og starfsheiðri sínum átölulaust. „Við höfum auðvitað okkar stolt,“ segir heimildarmaðurinn.

Eftir því sem Flugufóturinn kemst næst hefur mál þetta borið á góma í samtölum manna á milli og orðið á götunni er að markmiðið með pistlaröðinni sé að búa í haginn fyrir framboð Þórlinds til forseta Íslands árið 2012. Heimildarmenn Flugufótarins sem hafa fylgst með forsetakosningum hér á landi um langt árabil segja að margt bendi til þess að Þórlindur hafi sett stefnuna á Bessastaði. Enginn getur boðið sig fram til forseta nema að hafa náð 35 ára aldri en Þórlindur verður 35 ára réttu ári fyrir forsetakosningarnar 2012. „Það er engin tilviljun,“ segir gamalreyndur áhugamaður um forsetaembættið.

Aðrar heimildir Flugufótarins segja að undirbúningur fyrir framboð Þórlinds sé kominn enn lengra og er bent á það að Þórlindur hafi nýlega sést á tali við þekkta markaðsmenn sem reynslu hafa af margvíslegum kosningaherferðum. Það þykir auk þess renna stoðum undir framboð Þórlinds að hann er utan að landi og því er talið líklegra en ella að hann muni sækjast eftir embættinu sem fulltrúi hinna dreifðu byggða.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)