Sömu fráleitu rökin

Á laugardaginn næstkomandi eru nítján ár liðin síðan frumvarp var samþykkt á Alþingi um breytingu á áfengislögum sem heimilaði bruggun og sölu bjórs hér á landi.


Á laugardaginn næstkomandi eru nítján ár liðin síðan frumvarp var samþykkt á Alþingi um breytingu á áfengislögum sem heimilaði bruggun og sölu bjórs hér á landi.

Áður en lögunum var breytt var bjór álitinn munaðarvara sem aðeins forréttindahópar höfðu aðgang að og máttu flytja inn í landið, s.s. sendiráð og flugáhafnir. Bjórnum var því smyglað inn í landið, oftar en ekki sjóleiðis, og gekk kaupum og sölum á svörtum markaði eins og harðasta dóp. Í skjóli nætur brugguðu lögbrjótar þennan forboðna drykk á heimilum sínum en aðrir létu sér nægja að drekka svokallað bjórlíki sem var búið til úr pilsner og vodka.

Frumvarpið um afléttingu bjórbannsins var lengi í afgreiðslu á þinginu og olli miklu fjölmiðlafári. Beinar útsendingar voru úr þingsal og gátu landsmenn þannig fylgst með heitum umræðum þingmanna en í þá tíð var sjónvarpsstöð Alþingis ekki starfrækt. Hátt heyrðist í andstæðingum frumvarpsins þrátt fyrir að megin þorri landsmanna væri því fylgjandi. Andstæðingarnir héldu úti miklum hræðsluáróðri um afleiðingar þess að frumvarpið yrði samþykkt. Töldu þeir að með því að leyfa sölu á bjór væru menn að kalla yfir sig stóraukinn áfengisvanda og að útgjöld heilbrigðiskerfisins myndi fara upp úr öllu valdi. Unglingar fengju greiðari aðgang að áfengi, þrátt fyrir að frumvarpið gerði ráð fyrir að bjórinn yrði seldur á sömu útsölustöðum og sterkt áfengi var selt á þessum tíma. Ennfremur var því haldið fram að fólk myndi leggjast í drykkju á vinnutímum og yrði þar af leiðandi óvirkir þjóðfélagsþegnar, færu að keyra um götur landsins í ölvímu og að fjölskyldur myndu trosna upp í kjölfar afléttingar bjórbannsins.

Flutningsmenn frumvarpsins komu m.a. með þau rök að sala bjórs gæti breytt drykkjuvenjum landsmanna til hins betra. Fólk myndi taka upp drykkjusiði siðmenntaðra þjóða þar sem létts áfengis er neytt í minna mæli, en oftar, í stað óhóflegrar drykkju sterks áfengs um helgar. Ekki voru andstæðingar bjórfrumvarpsins sammála þessu og mæltu frekar með því að fólk færi bara á almennilegt fyllerí í stað þess að vera að þessu sötri og það vegna heilsufarsástæðna eins og Unnur Sólrún Bragadóttir Varaþingmaður Alþýðubandalagsins benti á, á þinginu:

„Að síðustu er það sannað að það er þó skárra að drekka í slurkum en að vera sísúpandi. Áhættan á lifrarsjúkdómum, svo sem lifrarkrabbameini og skorpulifur, er minni. “

Steingrímur J. Sigfússon fór á kostum í þessum umræðum á þinginu. Hann var að sjálfsögðu á móti frumvarpinu og taldi til margar af þeim ástæðum sem ég tel upp hér að framan. Steingrímur treysti landsmönnum engan veginn til þess að hafa hemil á eigin áfengisneyslu og vildi að gerðar yrðu ráðstafanir til að vega upp á móti bjórnum ef frumvarpið yrði samþykkt. Hérna eru tvær fráleitar hugmyndir Steingríms til að koma í veg fyrir aukna áfengisneyslu:

„Í fyrsta lagi: Ef við hefðum tekið um það ákvörðun samhliða því að leyfa bjórinn að lækka styrkleika brenndu drykkjanna úr t.d. 40% í 30% þannig að í hverri brennivínsflösku og vodka-flösku væri fjórðungi minna áfengi á sama verði.

Í öðru lagi hefðu menn getað tekið um það ákvörðun samhliða því að leyfa bjórinn að þrengja reglur um úthlutun vínveitingaleyfa.”

Í kjölfar seinni hugmyndar Steingríms talaði hann um að Íslendingar hefðu slakað of mikið á reglum um veitingu vínveitingaleyfa. Nú gæti hver sem er gengið rakleitt inn á næsta bar og keypt sér vín og þeir matsölustaðir sem hefðu leyfi til að selja áfenga drykki með matnum sínum væru margir hverjir krár í dulargervi:

„Staðir sem að nafninu til heita matsölustaðir eru fyrst og fremst barir eða krár, jafnvel út á það eitt að geta hitað eldgamlar, þurrar og skorpnar samlokur í örbylgjuofni ofan í fólk ef einhver er svo vitlaus að láta sér detta í hug að biðja um það og fær þá gjarnan með eftirgangsmunum. Þetta er staðreynd.”

Í dag sjá menn hve fráleitt það er að bjór hafi verið bannaður hér á landi og þá sérstaklega með þeim rökum sem hér hafa verið rakin. Skemmtilegt er að geta þess að nú, næstum tveimur áratugum síðar, er enn verið að nota sömu rök gegn frumvarpi um sölu léttvíns og bjórs í matvörubúðum. Það liggur ljóst fyrir að drykkjuvenjur Íslendinga hafa batnað síðan bjórinn var leyfður og landsmenn hafa sýnt það að þeir eru fullfærir um að bera ábyrgð á eigin áfengisneyslu. Það er því hálf sorglegt að heyra vinstrimenn flytja sama hræðsluáróðurinn og þeir fluttu fyrir tæpum tuttugu árum. Svo ef einhver dirfist að mæla með frumvarpinu, eins og ungir sjálfstæðismenn hafa gert, þá er kastað í þá með skætingi hvort þeir hafi ekkert betra og þarfara að gera við tíma sinn en að berjast fyrir því að léttvín og bjór sé seldur í matvörubúðum. Ég vona að þeir menn sem þetta mæla taki sjálfan sig á orðinu og hætti að eyða tíma þingsins í að flytja sömu ræður og fyrir tuttugu árum. Það ætti enginn að þurfa mæla með eða á móti þessu frumvarpi. Það á að vera fyrir löngu komið í gegnum þingið svo mikill “no breiner ”er það.

Um leið og ég óska landsmönnum til hamingju með afmælið á laugardaginn þá vil ég minna á að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík mun halda upp á afmæli bjórsins að venju á laugardaginn 1. mars á Ölstofunni. Herlegheitin byrja kl 19:30 og verður afmælisdrykkurinn í boði fyrir gesti sem hafa náð tilskyldum aldri.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.