Slúður á dagblöðum
Undanfarna daga hefur í leiðurum Deiglunnar verið fjallað um skrif á netinu og ábyrgðina sem þeim fylgir – og einnig skort á slíkri ábyrgð. Í gær var meðal annars rætt um slúðursíður á borð við Orðið á götunni sem er vettvangur til þess að koma af stað pólitískum kjaftasögum eða dreifa heppilegum skýringum á atburðarrás án þess að höfundar efnisins þurfi að gangast við þeim. Þegar þannig vettvangur fær sífellt aukið vægi í þjóðfélagsumræðunni er hætt við því að sífellt færri sjái tilgang í því að taka á sig þau hugsanlegu óþægindi sem fylgja því að tjá sig undir nafni.
Enn ein birtingarmynd þessarrar nafnleysishefðar eru skrif í slúðurdálka dagblaðanna. Flest blöð bjóða lesendum upp á einhvers konar dálka þar sem sagðar eru smáfréttir af fólki og kjaftasögur. Flest af því er meinlaust skemmtiefni sem hvorki er ætlað að særa né meiða. Líklega er fátt efni í dagblöðum eins mikið lesið og þess háttar pistlar og er því að einhverju leyti skiljanlegt að ritstjórnir setji slíkt efni í blöðin.
Af nafnlausum pistlum í íslenskum fjölmiðlum eru Víkverji og Staksteinar Morgunblaðsins einna frægastir, ásamt Svarthöfða í DV. Hin stóru dagblöðin birta ekki nafnlausa slúðurdálka þótt þeir birti ýmislegt smælki. Bæði á Fréttablaðinu og 24 stundum kvitta blaðamenn upp á þessi skrif með því að setja stafi sína eða netföng eftir efninu. Með því að taka þannig ábyrgð á efninu má gera ráð fyrir að líkurnar á því að blaðamenn fari yfir strikið minnki mjög umtalsvert. Í Viðskiptablaðinu, sem er að mörgu leyti frábært dagblað, má heita að heil síða hafi farið daglega undir nafnlaus skrif – gjarnan um stjórnmál. Þau skrif eru oft á tíðum býsna illkvittin og virðast stundum frekar sett fram til þess að skaða fólk eða hafa áhrif á atburðarrás fremur en að greina satt og rétt frá raunverulegri framvindu mála. Á allra síðustu dögum hefur sú stefnubreyting verið framkvæmd að hluti þessara skrifa eru nú merkt þeim sem heldur á penna, og má telja þá stefnubreytingu Viðskiptablaðinu til tekna, þótt enn sé þar birtur pistill undir dulnefni á hverjum degi.
Dagblöðin hafa vissulega bæði ritstjórnir og ábyrgðarmenn sem bera lagalega ábyrgð á því sem hinir nafnlausu pennar láta fara frá sér. Fjölmiðlar snúast hins vegar um meira heldur en lagalega ábyrgð, að minnsta kosti þeir sem vilja gera tilkall til trausts lesenda sinna og trúverðugleika í umræðunni. Samband dagblaðs og lesenda er byggt á trúnaði. Í flestum tilvikum hljóta lesendur að fara fram á að dagblöðin sem þeir lesa færi þeim raunverulegar fréttir, sannar og réttar, og að greint sé frá málum á eins yfirvegaðan og hlutlausan hátt eins og blaðamönnunum er frekast unnt.
Það ætti því að vera umhugsunarefni fyrir ritstjórnir þeirra blaða sem gefa blaðamönnum sínum tækifæri til þess að fara um víðan völl í skjóli nafnleysis hvort lesendur þeirra eigi ekki betra skilið. Einkum á þetta við ef hin nafnlausu skrif endurspegla hvorki raunverulegar vangaveltur manna eða sæmilega heiðarlegt mat á stöðu þeirra mála sem til umræðu eru heldur eru beinlínis notaðar til þess að hafa áhrif á umræðuna. Lesendur sæmilegra dagblaða hljóta að geta haft heimtingu á því að trúverðugleiki blaðanna sé ekki misnotaður til þess að þjóna pólitískum markmiðum blaðamanna, ritstjórna eða eigenda, nema að slíkt sé beinlínis hluti af rækilegra kynntri stefnu viðkomandi blaða. Lesendur verða að geta treyst því að blaðamenn reyni ekki að villa um fyrir þeim með því að dulbúa áróður sem fréttir.
Það er mikill munur á því þegar dagblað setur fram skoðanir sínar í leiðurum eða þegar lesendur þurfa að geta sér til um afstöðu blaðsins með því að rýna í fréttamat þess eða lesa milli línanna í slúðurdálkum. Annars vegar er það eðlilegt og hreinskiptið að lesendur geti í ritstjórnarefni kynnst þeim meginhugmyndum sem eru ráðandi á viðkomandi fjölmiðli. Það er hins vegar óheiðarlegt að setja markmið og skoðanir í felubúning og býður heim nákvæmlega sömu hættu á hnignun á siðferði í blaðamennsku eins og þegar nafnlaus skrif taka völdin á netinu. Að auki er mikill munur á málefnalegri umræðu sem sett er fram í ritstjórnarefni dagblaðanna og sögusögnum eða söguspuna sem birtist í slúðurdálkum blaðanna. Hið fyrra snýst um að færa rök fyrir málum en hið síðara hefur oftast nær það markmið að beina athyglinni frá málinu sjálfu, gera umfjöllunarefni persónuleg og snúa jafnvel út úr. Af þeim sökum er æskilegt að blaðamenn skrifi undir slíkt efni og taki þar með aukna ábyrgð á því sem þeir láta frá sér fara.
Sá texti sem menn þora ekki að setja nafn sitt við, ætti því að fá sérstaklega vandlega umfjöllun hjá ritstjórnum þeirra blaða sem bjóða upp á slíkt. Hver veit nema höfundurinn sjálfur, eða einhver honum nákominn, hafi hagsmuni af því (eða sérstakan áhuga á) að dreifa órökstuddum kjaftasögum, eða búa sjálfur til illkvitnar kenningar og setja fram í búningi kjaftasagna? Vandaðir fjölmðilar, sem gera tilkall til trausts lesenda sinna, ættu að gæta vel að því að láta ekki slíkt og annað eins spyrjast út um sig að þeir leyfi þess lags misnotkun.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021