Nafnleysingjar á netinu
Skrif Össurar Skarphéðinssonar um Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa, voru umfjöllunarefni leiðara Deiglunnar í gær. Þar kom fram sú afstaða að þótt margt í skrifunum séu ráðherranum og málstað hans lítt til framdráttar þá sé ekki tilefni til mikillar hneykslunar eða ofsareiði. Ráðherranum er frjálst að meta hvort slíkt sé honum, trúverðugleika hans og orðspori, til framdráttar eða ekki. Þau skrif sem nú hafa borið hæst dæma sig sjálf og hafa orðið ráðherranum álitshnekkir fremur en vegsauki. Mátulegt á hann.
En þeir eru ekki allir sem þora að stíga fram á ritvöllinn með þeim hætti sem Össur gerir – og sumir þeirra gera það þó samt. Það eru nefnilega ekki endilega ofsafengin skrif vansvefta ráðherra sem réttast er að hafa áhyggjur af ef vilji er til þess að ræða tjáningarfrelsið eða pólitíska orðræðu. Stærra mein eru hinir nafnlausu gammar sem fara fram með sambærilegum hætti – og oft miklu svæsnari – í skrifum sínum á blogg og spjallsíðum. Í skjóli slíks nafnleysis fara ýmsir heiglar fram með ýmis konar óhróður og dylgjur til þess að styðja tiltekinn málstað eða ákveðið fólk í pólitískum tilgangi, eða ráðast á annað fólk af hreinræktaðri illkvittni eða hefnigirni.
Grófustu birtingarmyndir þessa eru vitaskuld nafnlausir bloggarar og netspjallarar sem tjá sig án ábyrgðar og afleiðingar um menn og málefni án þess að eiga á hættu að orð þeirra verði hermd upp á þá. Sögusagnir eru settar af stað og rógur borin út í algjöru lagalegu og siðferðislegu tómarúmi. Sem betur fer hafa slík skrif ekki mikið raunverulegt vægi þótt þau geti sært þá sem fyrir verða, sem og þeirra nánustu.
En nafnlausa umræðuhefðin er því miður ekki bara bundin við börn og aðra minna þroskaða menn á spjallsvæðum og bloggsíðum. Heilu fjölmiðlarnir hafa sprottið upp í kringum þá iðju að dreifa og koma af stað kjaftasögum og kenningum. Ber þar helst að nefna hið svokallaða „Orð á götunni“ sem haldið er úti af nafnlausum og ósýnilegum mönnum.
Tilgangur Orðsins á götunni virðist frá upphafi hafa verið að vera einhvers konar safnþró ýmiss kjaftagangs í pólitík og viðskiptalífi. Vitaskuld leynist oft sannleikskorn í því sem hvíslað er í skúmaskotum og þess vegna er líklegt að þeir nái að vera fyrstir með fréttirnar sem láta sér í léttu rúmi liggja þótt flestar sögurnar sem þeir segja reynist byggðar á sandi. En þeir eru til sem hafa áhuga á því að setja af stað sögur með því að senda nafnlausa pistla til birtingar á síður eins og Orðið á götunni. Hinir nafnlausu ritstjórnarmeðlimir miðilsins geta leyft sér að velja og hafna kjaftasögunum út frá allt öðrum forsendum heldur en ef mannorð og starfsheiður þeirra sjálfra væri lagður undir þá dómgreind sem beitt er við ritstjórnina.
En rétt eins og unglingar í sólarlandarferð geta valdið þeim spjöllum sem þeim sýnist án mikillar hættu á að upp komist þá leiðir ábyrgðarleysið á netinu til sífellt hnignandi siðferðisþreks meðal þeirra sem í skjóli þess starfa. Kjaftasögurnar sem settar eru fram sem eitt form af blaðamennsku verða fljótlega lítið annað en tæki í höndum þeirra sem hafa hag af því að snúa pólitískum vindum í þessa eða hina áttina.
En vefsíður eins og Orðið á götunni verða á endanum sjálfri sér að bráð. Fréttirnar og sögusagnirnar sem berast fjarlægjast smám saman skilgreininguna á frétt. Raunverulegar vangaveltur víkja fyrir söguspuna þeirra sem hafa hagsmuni af tiltekinni niðurstöðu í málaframvindunni. Það er lítið mál að dulbúa söguspuna með því að segja „ólyginn sagði,“ „hvíslað er,“ eða „háværar raddir eru um“ jafnvel þótt heimildin sé ekkert annað heldur en ímyndunarafl höfundarins. Það er að minnsta kosti þægilegra að setja slíkt fram í skjóli nafnleysis heldur en að þurfa að standa sjálfur skil á því.
Hverjir sem standa að Orðinu á götunni hafa þá óskemmtilegu stöðu að vera lítið annað en gjallarhorn annarra manna sem telja sig hafa hagsmuni af því að klekkja á mönnum eða gera þeim skráveifu. Það er furðulegt að til sé fólk sem sættir sig við það hlutskipti.
Frelsi og ábyrgð eru óaðskiljanleg hugtök. Án ábyrgðar leiðir frelsi okkur í ógöngur. Þess vegna er hin nafnlausa hefð á netinu í raun og veru hættuleg fyrir opin og lýðræðisleg þjóðfélög. Eina leiðin til að sporna við þessari þróun er félagslegur þrýstingur. Eigendur bloggsíðna, skipuleggjendur spjallsvæða og ritstjórar vefsvæða ættu að úthýsa þeim sem vilja misnota miðla þeirra til nafnlausra skrifa. En til þess að það gerist er nauðsynlegt að halda uppi stöðugri umræðu um það hvað teljist ásættanlegt í opinberri umræðu – hvort sem það er á netinu eða á öðrum vettvangi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021