Laugardaginn síðstliðin fór fram flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þar sem fundurinn hvatti „…landsmenn til að hrinda atlögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að almannaþjónustunni.“ Það er ekki vitað með vissu hvað við er átt þegar almenningur er beðinn um að hrinda atlögu ríkisstjórnarinnar, en undir niðri virðist krauma gömul gremja yfir einkavæðingarferli bankanna sem fór fram undir lok síðustu aldar.
Í ályktuninni er komið inn á meint áform ríkisstjórnarinnar um víðtæka einkavæðingu innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar, í menntakerfinu og á sviði samgangna og það sagt alvarlegt tilræði við velferðarþjóðfélagið. Það að halda því fram að einkavæða eigi velferðarkerfið á Íslandi er úr lausu lofti gripið og á sér enga stoð í raunveruleikanum og ályktun gegn því í raun marklaus.
Enn eina ferðina eru Vinstri grænir með einkavæðingar hræðsluáróður á röngum forsendum. Það er orðið löngu tímbært að forsvarsmenn grænu hreyfingarinnar kynni sér muninn sem felst í einkavæðingu annars vegar og einkarekstri hins vegar. Þetta er nefnilega ekki alveg sami hluturinn. Það virðist vera sama hversu oft og með hvaða hætti þetta er matreitt ofan í forystu framboðsins græna þá neitar hreyfingin að meðtaka muninn á þessu tvennu. Á Íslandi hefur hin bandaríska leið einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu aldrei verið boðuð, hvorki fyrr né síðar. Hins vegar hefur leið einkaframkvæmdar / einkareksturs verið notuð í auknu mæli þar sem hið opinbera greiðir fyrir þjónstuna en einkaaðilar framkvæma hana eftir mjög ströngum kröfum hins opinbera sem gert er á grundvelli þjónustusamnings í kjölfar útboðs. Til útskýringar má nefna að Hvalfjarðargöngin eru dæmi um einkaframkvæmd og Reykjalundur er dæmi um einkarekstur. Það er ekki auðvelt að sjá fyrir sér hvernig þessi tvö ofangreind dæmi hafa komið niður á íslenskum almenningi, skert samgöngur eða heilbrigðisþjónustuna með nokkrum hætti. Ef eitthvað er þá mætti liðka enn frekar fyrir aðkomu einkaaðila að hinum ýmsu sviðum sem ríkið einokar enn.
Samkvæmt græna framboðinu eru stjórnmálamenn langbest til þess fallnir að hafa vit fyrir okkur almenningnum og ráða og reka helst sem flesta þjónustuþætti samfélagsins. Hreyfingin getur ekki séð af ríkisforsjáinni sem að þeirra mati er eina og besta leiðin í flestum tilfellum. Það er svo annar handleggur að halda því fram að halda því fram að almannaþjónusta líði fjársvelti á meðan útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi eru með því hæsta sem gerist í heiminum. Það er á svona tímum sem maður þakkar fyrir að hin græna hönd vinstri framboðsins stjórnar ekki grænu seðlum hins opinbera sem nú þegar tekur til sín háar fjárhæðir í gegnum skattheimtu sem ættu betur heima í vasa almennings.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020