Háskóli Íslands hefur kynnt hugmyndir um að setja á laggirnar afreks- og hvatningarsjóð til þess að styrkja afburðanemendur við skólann. Þetta er rétt skref af hálfu skólans – í átt frá þeirri jafnstöðu- og meðalmennskuhugsun sem einkennt hefur skólann og stjórn hans um langa hríð.
Góðir nemendur og gott skólaumhverfi verða ekki til af sjálfu sér og það má laga margt í Háskóla Íslands. Margir nemenda skólans hafa kynnst því viðmóti að nemendur séu til staðar fyrir skólann en ekki öfugt, þ.e. að nemendur eigi í raun að þakka fyrir að fá að vera í skólanum í stað þess að skólinn og starfsmenn hans séu sérstaklega ánægðir með hve mikil aðsókn sé að skólanum og reyni eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir og óskir þeirra sem velja að læra þar.
Þetta má ekki skilja sem svo að starfsfólk og kennarar skólans séu beinlínis þeirrar skoðunar að nemendur eigi ekki rétt á að njóta góðri þjónustu. Vandamálið hefur miklu frekar verið ákveðið hugarfar í skólanum, sem byggir á því að illa sé komið fram við hann og honum lítil virðing sýnd. Viðkvæðið hefur því verið að fátt sé hægt að gera og að alltof lítið af peningum sé í boði. Sérstaklega átti þetta við um þær deildir sem lægst framlög fá samkvæmt reiknilíkani menntamálaráðuneytisins, þ.e. félagsvísinda-, guðfræði-, laga- og hugvísindadeild. Vandinn við þetta hugarfar er að umhverfið í skólanum verður ekki nógu frjótt og skapandi fyrir vikið. Það er þó hverjum skóla nauðsynlegt.
Sem betur fer er þetta hugarfar hverfandi í Háskóla Íslands. Það er ekki síst Kristínu Ingólfsdóttur, rektor, og háleitum hugmyndum hennar að þakka. Skömmu eftir að hún tók við sem rektor réðst skólinn í stefnumörkun til framtíðar, sem gekk m.a. út á að skólinn kæmist í hóp þeirra 100 bestu í heiminum. Margir glottu yfir þessu markmiði – enda nær skólinn ekki einu sinni inn á topp 500 núna og ansi hástemmt að ætla sér að fljúga upp þennan lista, sem inniheldur marga metnaðarfulla háskóla. Það sem færri áttuðu sig á var að markmiðið sem slíkt var ekki aðalatriðið heldur hitt að því fylgdi ítarleg aðgerðaráætlun um stórtækar breytingar á vinnulagi skólans. Þessar breytingar voru nauðsynlegar, ekki eingöngu til að vinna sig upp einhvern samanburðarlista, heldur til þess að skólinn gæti farið að þróast áfram. Með þessu fékk skólinn tækifæri til þess að vinna sig út úr hugarfari vandamála og erfiðleika yfir í andrúmsloft metnaðar og bjartsýni. Þetta skiptir miklu máli.
Angi af þessu gamla hugarfari innan veggja skólans hefur verið að afburðanemendur og þeir sem skara fram úr í skólanum hafa ekki alltaf fengið sérstaka athygli eða hvatningu til að gera enn betur. Auðvitað eru til dæmi um að einstaka kennarar reyni að standa sig að þessu leyti og hvetja til dáða þá nemendur sem best standa sig. Það hefur hins vegar, eins og svo margt annað í skólanum, frekar byggt á einkaframtaki hvers og eins kennara en ekki verið hluti af umgjörð skólans. Ljóst er að Háskóli Íslands ætlar að taka sig á hvað þetta varðar og stofna sérstakan sjóð til þess að verðlauna og umbuna sérstaklega góðum nemendum.
Þó þetta sé ekki stórt skref í sjálfu sér né kostnaðarsamt, skiptir allt svona máli þegar til lengri tíma er litið. Allar langar ferðir hefjast með litlu skrefi og skólinn hefur verið að taka fyrstu skrefin í vegferð sinni að undanförnu. Árangurinn á eftir að koma betur í ljós en þær breytingar sem gerðar hafa verið lofa góðu.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021