Pappírstígurinn Össur
Þeir sem hyggjast ná til metorða í þeim sýndarveruleik sem bloggheimar eru, beita gjarnan fyrir sig ýmsum þekktum trixum. Umfjöllun um klám er örugg leið til þess að auka heimsóknir, gagnrýni á feminista á spjallsvæðum er líka pottþétt , það að vera fyrstur til að tengja sig við frétta á mbl er líka skotheld leið til þess að raka inn heimsóknum – sér í lagi ef viðfangsefni fréttarinnar er klám, feminismi, skandalar fræga fólksis eða annar úrgangur sem lokkar netverja eins og kúaskítur og mýflugur.
Þessi trix þarf ekki að kenna Össuri Skarphéðinssyni. Honum tókst loks að ganga svo langt í skrifum sínum um pólitískan andstæðing í síðustu viku að almenna athygli vakti. Reyndar mætti færa rök fyrir því að meðferðin á Gísla Marteini Baldurssyni sé ekkert betri eða verri, svæsnari eða smekklegri heldur en margir aðrir hafa mátt þola af lyklaborði iðnaðarráðherrans. Aðrar árásir hafa vakið minni athygli en vera má að þetta hafi verið kornið sem fyllt mælinn.
Það sem vekur viðbrögðin er annars vegar orðfæri Össurar, sem er auðvitað fyrst og fremst smekksatriði, og hins vegar sú hegðun sem hann ásakar Gísla Martein um. Ásökunin er vitaskuld alvarleg þar sem Össur fullyrðir að Gísli Marteinn hafi verið „operatörinn“ bak við atlögu að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra sl. vor. Eðlilegt er að Gísla Marteini þyki þessar ásakanir sárar – og vitaskuld eru þær ógætilegar, órökstuddar og illgjarnar. En Gísli þarf líklega ekki að hafa raunverulegar áhyggjur af því að fólk trúi þessari kenningu enda hafa allir séð það kapp sem hann hefur lagt á að verja og styðja Vilhjálm þessar síðustu vikur þegar hart hefur verið sótt að honum. Það breytir því þó ekki að slíkar ásakanir geta verið særandi og jafnvel alið á tortryggni milli manna, sem er auðvitað það sem vakir fyrir Össuri með skrifum sínum.
Um þessa tilraun Össurar til þess að sá slíkum efasemdafræjum mætti einna helst nota orð hans sjálfs – um annað uppdiktað plott sem hann taldi sig hafa komist á snoðir um síðla nætur einn dag haustið 2006 – og segja að þessi fýlusprengja hafi sprungið með hvelli í höndum þess sem kveikti í þræðinum. Það er Össur sjálfur sem situr uppi með þann blett á orðspori sínu að hafa ítrekað reynst ómögulegt að hemja sig til þess að stunda málefnalega umræðu og glata þannig smám saman trúverðugleika.
Um það leyti sem Össur skrifaði um fýlubombuna virðist sem ýmsar svartar hugsanir um fyrirætlanir, innræti og athafnir manna í Sjálfstæðisflokknum – sumra hverra hann hefur aldrei hitt – hafi sótt á hann. Þar fór hann með sama ofsanum gegn mönnum og gerði þeim upp slíkar dimmar og illar hvatir að halda mætti að lýsingarnar ættu við um andhetjur í njósnamyndum eða teiknimyndasögum. Þeir rosalegu þræðir sem Össuri hefur tekist að spinna upp úr eigin hugarafli bera vott um fjörugt ímyndunarafl en lítið eiga þær skylt við raunveruleikann. Framsetningin og umfjöllun um menn og málefni hefur svo sem líka rennt stoðum undir þá fullyrðingu margra að Össuri sé tamt að nota „lifandi líkingamál“ – þótt flest af því sé svo yfirdrifið og æðisgengið að helst ætti það fyrirmyndir í riddarasögunum eða öðrum paródíum.
Það að Össur skrifi óhróður um sjálfstæðismenn er ekkert nýtt. Það gerði hann oft og ítrekað áður en hann varð ráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þær árásir vöktu ekki sömu athygli hjá fjölmiðlum og sú nýjasta. Þær voru þó alveg eins hatrammar og illskeyttar og þar var heldur ekki dregið af neinu í líkingamáli sem notað var um fólk sem hafði ekki annað til saka unnið heldur en að sinna embættum og störfum hjá Sjálfstæðisflokknum.
Gísli Marteinn svaraði vel fyrir sig þegar hann var spurður út í þessi skrif Össurar. Hann hefur ekki áhuga á því að standa í pólitík þar sem slíkur ofsi og ótemjuskapur er ríkjandi. Það er enda tæpast hægt að bjóða fólki upp á slíkt – eins og sannast best á þeim neikvæðu viðbrögðum sem Össur hefur hlotið. Fáir eru til þess að verja skrif hans og ekki þykir mörgum sómi af því að svo hátt settur maður í þjóðfélaginu gangi fram með svo óhefluðum hætti í málflutningi sínum. Smekkur þjóðarinnar fyrir þessum skrifum birtist meðal annars skýrt í þeirri niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins að Össur njóti nú næst minnsts trausts meðal íslenskra stjórnmálamanna.
Það er því fullkomlega réttmætt að gagnrýna Össur fyrir skrif hans um Gísla Martein Baldursson – og reyndar fjölmörg önnur skrif. En málið er samt sem áður ekki alvarlegt í raun, enda vita allir hvaðan fýlubomban kom. Össur skrifar sína pistla á vefsíðu sem ber nafn hans sjálfs og kvittar undir allt með dagsetningu og tímasetningu. Hann leyfir ennfremur hverjum sem er að tjá sig um skrifin í umræðukerfi á síðunni. Hvað sem mönnum kann að þykja um pistla Össurar þá er ljóst að fari hann offari skaðar hann fyrst og fremst sig sjálfan – og allur leikurinn er ofan yfirborðs, gagnsær og í anda þeirra grundvallarréttinda um tjáningarfrelsi sem flest okkar viljum tryggja og vernda.
Hvað sem mönnum kann að finnast um skrif Össurar Skarphéðinssonar er öllum ljóst hver heldur á penna og hvaða pólitíska málstað hann stendur vörð um hann. Kjósi hann að skemma fyrir sér með því að fara offari í þeim skrifum er það auðvitað fyrst og fremst fagnaðarefni fyrir þá sem eru ósammála honum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021