Aðilar vinnumarkaðarins sýndu það með nýgerðum kjarasamningum að þeir standa undir þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin af umbjóðendum sínum. Hóflegar og markvissar launahækkanir eru mikilvægt framlag vinnumarkaðarins til að treysta stöðugleikann í íslensku efnahagslífi. Framundan eru samningar við opinbera starfsmenn og því miður eru blikur á lofti um að þar gangi menn ekki til samninga með jafn ábyrgt hugarfar, ef marka má yfirlýsingar forystumanna opinberra starfsmanna.
Forystumönnum launþega annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, einkum þeim Grétari Þorsteinssyni og Vilhjálmi Egilssyni, verður seint þakkað mikilvægt framlag þeirra við gerð hinna nýju samninga, sem óneitanlega marka tímamót á íslenskum vinnumarkaði. Hlutfallslega mikil hækkun lægstu launa og viðurkenning á því að aðrir tekjuhópar munu hagnast mest á þeirri kaupmáttaraukningu sem fylgir lægri verðbólgu er merkur áfangi.
Aðkoma ríkisstjórnarinnar að slíkum samningum er alltaf umdeild og sú venja að beðið sé eftir „pakka“ frá ríkisstjórninni til að hægt sé að loka samningum er síður en svo til fyrirmyndar. Auknar greiðslur úr ríkissjóði í formi bóta og styrkja eru gagnrýnisverðar en aðrir þættir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru lofsverðir og ber þar hæst skattalækkun á fyrirtæki úr 18% í 15%. Ljóst er að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja eykst til muna við þessa breytingu, auk þess sem hún mun hafa sterk og jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækjanna og þar með þjóðarbúsins í heild. Það gleymist því miður alltof oft að öflug fyrirtæki með tilheyrandi verðmætasköpun eru undirstaða velmegunar, hárra launa og velferðarkerfis í fremstu röð.
Nýgerðir kjarasamningar undirstrika umfram allt sameiginlegan skilning launþega og vinnuveitenda á þessu grundvallaratriði sem hér er nefnt, þ.e.a.s. að verðmætasköpun er undirstaða velmegunar. Þetta lögmál er hins vegar með öllu hulið forystumönnum opinberra starfsmanna sem virðast fastir í kjarabaráttu liðinna tíma, þar sem víxlhækkun launa og verðlags með tilheyrandi ofurverðbólgu sligaði íslenskt efnahagslíf. Miðað við yfirlýsingar Ögmunar Jónassonar, formanns BSRB, og fleiri forystumanna opinberra starfsmanna er ljóst að erfirðir samningar eru framundan.
Afar brýnt er að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn standi fast í fæturna í komandi samningum og veiti fjármálaráðherra þann pólitíska stuðning sem nauðsynlegur er. Ríkisvaldið verður að sýna þá festu og ábyrgð sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt af sér með nýgerðum kjarasamningum. Gera verður þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir leggi hina skynsamlegu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til grundvallar í samningum við opinbera starfsmenn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021