Evruumræðan hefur enn á ný fengið byr undir báða vængi, en í vikunni fór fram Viðskiptaþing Viðskiptaráðs sem bar yfirskriftina “Íslenska krónan – Byrði eða blóraböggull?” Vilji atvinnulífsins er kristaltær. Köstum krónunni hið fyrsta og tökum upp Evru. Hins vegar eru ekki uppi jafn kristaltærar skoðanir um það með hvaða hætti best væri að kasta krónunni og taka upp annan gjaldmiðil. Um það þurfa stjórnmálamenn að taka af skarið.
Skoðum ummæli nokkurra viðskiptaforkólfa að undanförnu:
“Það er langtímasjónarmið fyrir ríkið að skoða alvarlega aðild að Evrópusambandinu. Ef það gerist eiga bankarnir framtíð á Íslandi” – Jón Ásgeir Jóhannesson. Viðtal við Markaðinn 14. febrúar 2008.
„Sitji stjórnvöld með hendur í skauti er hætt við því að evra verði tekin upp með óskipulögðum og óformlegum hætti. Þar með væri tækifæri stjórnvalda til að stýra atburðarrásinni glatað og þau gætu neyðst til að fylgja þróuninni eftir í stað þess að leiða hana. “ – Erlendur Hjaltason, Viðskiptaþingi 14. febrúar 2008.
„Þeir sem eru að kaupa krónuna og halda henni uppi eru spákaupmenn vestan hafs. Það eru vogunarsjóðir sem eiga mest undir í krónunni og þeir hafa engra hagsmuna að gæta.” [….] „Við eigum bara að taka gjaldeyrisáhættuna út og láta fólk einbeita sér frekar að rekstrarumhverfinu.“ – Björgólfur Thor Björgólfsson, Kastljósi 27. desember 2007.
Það er deginum ljósara að stjórnvöld munu ekki standast þennan þrýsting frá atvinnulífinu og velflestum stórfyrirtækjum landsins til lengri tíma. Að óbreyttu ástandi verður Evran tekin upp á einn hátt eða annan, fyrr en seinna, með eða án stjórnvalda. Það er dagljóst.
Margur umræðupólitíkusinn hefur fyrir löngu tekið upp þá skoðun að taka upp Evru, en það virðist þó skína nokkuð vel í gegn að þeir stjórnmálamenn, að ég tali nú ekki um ráðherra, sem hafa haft hvað hæst um þessi mál virðast í raun botna lítið í málinu, en vera þeim mun duglegri að taka sér skoðanir annarra í munn. Oft glymur hæst í tómri tunnu.
Síðan er það hinn vinkillinn, pólitíkusarnir sem eru þöglir sem gröfin. Reyndar verður það að teljast skynsamlegur vinkill hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar, því um leið og þeir munu gefa út sterkar yfirlýsingar um krónuna eru töluverðar líkur á því að það muni hafa áhrif á gengi krónunnar til lækkunar. Að menn tali niður gengið. Sem gerir það síðan aftur erfiðara að taka upp Evruna, því menn eru sammála um að nokkrum stöðugleika þurfi að ná í gengissveiflum áður en raunhæft væri að taka upp Evru (og það eru raunar ýmis slík skilyrði, bæði um gengisflökt og stýrivaxtastig, verði gengið í myntbandalagið í kjölfar inngöngu í ESB). En þá kemur aftur upp spurningin, ef við náum að minnka gengissveiflurnar og ná stöðugleika í efnahagsmálunum, til hvers þurfum við þá Evru? Aðalmarkmiðið með upptöku hennar er jú að minnka flöktið og gengisháættu. Áhugaverð hringrás.
Það liggur fyrir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að ekki verði tekin ákvörðun um upptöku Evru eða inngöngu í ESB á kjörtímabilinu. Vilji Samfylkingarinnar í málinu er nokkuð ljós og sífellt fleiri Sjálfstæðismenn hafa tekið af skarið og lýst yfir áhuga á því að skoða upptöku Evrunnar. Að mati undirritaðs er það ekki spurning um hvort heldur hvenær krónunni verður kastað. Spurningunni sem er ósvarað er hins vegar með hvaða hætti á að taka upp Evruna og hvenær. Í skýrslu Viðskiptaráðs, sem kom út á viðskiptaþinginu er bent á nokkrar leiðir: Aðild Íslands að ESB og myntbandalaginu, einhliða upptöku Evru, stofnun svokallaðs myntráðs, tvíhliða tengingu gjaldmiðla og umbreytingu í fjölmynta samfélag. Kostir og gallar þessara ólíku aðferða við upptöku Evru er efni í annan pistil, en nánar er hægt að lesa um þessa möguleika í skýrslu Viðskiptaráðs hér.
Niðurstaðan er hins vegar ljós og boltinn er hjá stjórnmálamönnum. Rökræn umræða og vinnan við að svara þessum spurningum verður að fara í formlegt ferli sem allra fyrst því þessum spurningum þarf að vera svarað fyrir næstu kosningar. Þeir flokkar sem ekki munu hafa skýra sýn í þessum efnum munu án vafa bera skertan afla frá borði þegar atkvæðin verða talin 2011.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010