Undanfarna mánuði hafa verið miklar sviptingar í ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Fyrir tæpum tveimur árum hefði engan órað fyrir þeim atburðum sem átt hafa sér stað fram til þessa. Allir flokkar sem buðu fram til sveitarstjórnarkosninga 2006 hafa nú setið bæði í meiri-og minnihluta það sem af er kjörtímabilinu. Þannig hafa allir flokkarnir á einhverjum tímapunkti setið við stjórnvöl borgarinnar og fengið tækifæri til þess að koma sínum stefnumálefnum til framkvæmdar. Á tæplega tveimur árum hafa verið myndaðir þrír meirihlutar og hefur umræðan að mestu leiti snúist um þá einstaklinga sem stýrt hafa borginni á hverjum tíma, en athyglin hefur verið minni á þau mál sem flokkarnir standa fyrir.
Tíð meirihlutaskipti í Reykjavík eru ekki til þess fallin að efla trú almennings á stjórnmálamenn. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægast fyrir Reykvíkinga að borgarfulltrúar sama hvar í flokki þeir kunna að standa beini athygli sinni að málefnum Reykjavíkurborgar – því það er verk að vinna.
• Nauðsynlegt er að komið verði á öflugri fjármálstjórn og fjármálin tekin föstum tökum þannig að borgarbúar fái að njóta árangurs þess í lægri sköttum, t.d. með lægra útsvari og lægri fasteignasköttum. Nú stendur yfir fjárhagsáætlanagerð Reykjavíkurborgar fyrir næstu þrjú ár – mikilvægt er að útgjöldum sé stillt í hóf og þau metin út frá mikilvægi þeirra og þess gætt að peningum borgarbúa sé varið með skynsamlegum hætti.
• Samgöngumálin þola ekki bið, eilífar deilur um Sundabraut þarf að leysa hið snarasta en taka þarf ákvörðun um staðsetningu hennar og hefja framkvæmdir strax í kjölfarið. Huga þarf eflingu helstu stofnleiða borgarinnar með markvissari hætti t.d. mislægum gatnamótum og stokkum þar sem það telst fýsilegt þannig að borgarbúar komist leiðar sinnar án teljandi vandræða.
• Lóðamál hafa verið óásættanleg í borginni um árabil og löngu tímabært að borgarbúum bjóðist fýsilegir valkostir í þeim efnum og lóðaframboð verði stóraukið þannig að Reykvíkingar þurfi ekki að leita til annarra sveitarfélaga í þeim efnum.
• Það gengur ekki til lengdar að foreldrar komist ekki til vinnu vegna stöðugrar manneklu á leikskólum borgarinnar. Gjaldfrjálsir leikskólar eru ekki til þess fallnir að leysa það vandamál. Opna þarf á aukna aðkomu einkaaðila að rekstri leikskóla í borginni og auka þannig valfrelsi foreldra og leikskólakennara.
• Endurskoða þarf kjarasamninga á milli launanefndar sveitarfélaga og kennarasambandsins frá grunni og efla þannig stöðu kennara, skólastjórnenda og sveitarfélaga.
Það er orðið löngu tímabært að stjórnmálamenn í borginni beini sjónum sínum aftur í átt að málefnum borgarinnar og vinni saman að hagsmunum borgarbúa. Dýrmætur tími hefur farið til spillis þar sem einblýnt hefur verið á hver skipar borgarstjórastólinn og hvort viðkomandi passi í hann. Það er lykilatriði að nú horfi borgarfulltrúar Reykvíkinga allir sem einn fram á veginn og vinni saman að eflingu Reykjavíkurborgar. Segja má að allir flokkar hafi fengið sitt tækifæri við stjórnvöl borgarinnar, það þarf ekki að minna borgarfulltrúa á að það eru einungis rétt rúm tvö ár til kosninga og þar munu verk þeirra verða metin af kjósendum. Nú er tækifæri til þess að láta verkin tala.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020