Í gærkvöldi sýndi Skjár Einn fyrsta þáttinn í nýrri seríu af bílaþættinum geysivinsæla,Top Gear. Skjár Einn hafði mikið auglýst þáttinn, enda umfjöllunarefnið ekki af verri endanum – leiðangur þáttarstjórnendanna á Norðurpólinn. Þá skemmdi ekki fyrir að leiðangurinn var undir eftirliti Íslendinga sem sérhæfa sig í jeppaferðum við slíkar aðstæður. En var einhver undirtónn í þættinum?
Þátturinn var settur upp sem keppni. Skipt var upp í lið og keppt var í hvort liðið yrði á undan að komast á Norðurpólinn. Annað liðið ferðaðist með hundasleða á meðan hitt liðið ferðaðist á bílum, sérútbúnum af íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks. Það fylgdi þó sögunni að erfitt ætti að vera að komast á Norðurpólinn akandi þar sem ísinn ætti varla að geta haldið uppi þunga bílanna.
Á leiðinni þurftu liðin svo að takast á við ýmsar aðrar hindranir. Nístingskuldi er á Norðurpólnum og gerir það þeim erfitt fyrir við hin einföldustu verk, eins og að tjalda og að ganga hægða sinna. Þá gerði hrikalegt landslag Norðurpólsins og þynna íssins hinu akandi liði erfitt fyrir. Þrátt fyrir að mórallinn hafi ekki alltaf verið góður náði annað liðið að sigrast á þessum hindrunum og komast á leiðarenda og fagnaði með því að gæða sér á kjötfarsi á pólinum.
Þess má reyndar til gamans geta að ein hindrun reyndist þeim félögum óyfirstíganleg. Í tilefni að sýningu þáttarins á Skjá Einum stóð til að fá einn þáttarstjórnandann, Jeremy Clarkson, hingað til landsins. Það varð þó ekki úr enda hefur verið vonskuveður á landinu síðustu viku og nánast ómögulegt að komast til landsins. Erfiðar aðstæður Norðurpólsins komast því ekki með tærnar þar sem íslensk veðrátta hefur hælana.
Í lok þáttarins var svo farið yfir umhverfismál. Eftir að hafa sigrast á pólinum reifaði Clarkson skoðanir sínar á hlýnun jarðar. Hann taldi að þar sem að hægt væri að keyra bíl að Norðurpólinum hlyti hann að vera fínu standi og því væru allar hugmyndir um bráðnun íss og hlýnun jarðarinnar stórlega ýktar. Hafa þáttarstjórnendur áður viðrað þessi sjónarmið sín og gert lítið úr áhrifum losunar koldíoxíðs á umhverfið.
Vísindin á bakvið hlýnun jarðar eru flókin. Burtséð frá áhrifum útblásturs á hlýnun jarðar þá hlýtur það að vera markmið að draga úr notkun á olíu og auka notkun vistvænna orkugjafa í heiminum. Það er einfaldlega eðlilegt að nota þá orkugjafa sem óumdeilt er að hafi minnst áhrif á umhverfið. Hvort sem um raunvörulega skoðun þáttarstjórnandans eða réttlætingu á allri bensínnotkun hans sé að ræða skal hins vegar ósagt látið.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009